Handbolti

Einar Andri: Vildum ekki hjálpa þeim að undirbúa sjö á móti sex

Ingvi Þór Sæmundsson í N1-höllinni skrifar
Einar Andri og félagar eru komnir í 1-0.
Einar Andri og félagar eru komnir í 1-0. vísir/andri marinó
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var að vonum hæstánægður með það sem hann sá til sinna manna í seinni hálfleiknum gegn Selfossi í kvöld.

„Við vorum í miklum ham í seinni hálfleik og sóknin, sjö á móti sex, var frábær. Vörnin var líka virkilega góð og við lögðum mikla vinnu á okkur þar. Ég held að Davíð [Svansson] hafi ekki varið skot fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik en samt fengum við á okkur fá mörk. Það sýnir hvað þetta var þétt,“ sagði Einar Andri eftir sigurinn í kvöld.

Afturelding skoraði aðeins átta mörk í fyrri hálfleik en í þeim seinni, þegar liðið spilaði með sjö sóknarmenn, skoraði það 23 mörk. En af hverju beið Einar Andri með það fram í seinni hálfleik að spila með sjö sóknarmenn?

„Það tók okkur 11 mínútur að skora fyrsta markið en svo skoruðum við átta mörk síðustu 20. Það var því að komast taktur í sóknina. Við vildum líka bíða með það til að hjálpa þeim ekki að undirbúa þetta. En við vorum byrjaðir að ræða þetta tiltölulega snemma leiks,“ sagði Einar Andri sem segir að hugurinn hjá hans mönnum hafi verið kominn við úrslitakeppnina fyrir nokkru síðan.

„Kannski að einhverju leyti hjá strákunum. Við breyttum aðeins æfingaplaninu. Við vorum hundfúlir með marga af þessum leikjum sem við spiluðum eftir áramót,“ sagði Einar Andri.

Varnarleikur Aftureldingar var ekki burðugur síðustu umferðirnar í Olís-deildinni en það var allt annað að sjá hann í kvöld.

„Frá áramótum höfum við unnið daglega í varnarleiknum og maður var farinn að efast um að maður hefði eitthvað í það að gera. En þeir sýndu það í dag að þeir kunna þetta,“ sagði Einar Andri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×