Enski boltinn

Ranieri segist hafi átt óvin innan raða Leicester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Ranieri með Englandsbikarinn.
Claudio Ranieri með Englandsbikarinn. Vísir/Getty
Claudio Ranieri, fyrrum knattspyrnustjóri Leicester City, segir að honum hafi verið ýtt út hjá félaginu þrátt fyrir að hafa aðeins níu mánuðum fyrr gert liðið að Englandsmeisturum.

Leicester City hefur tekið algjörum stakkaskiptum eftir að Craig Shakespeare, fyrrum aðstoðarmaður Claudio Ranieri, tók við. Liðið vann fimm fyrstu deildarleikina undir hans stjórn og komst einnig í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Það komu hörð viðbrögð allstaðar að úr knattspyrnuheiminum þegar Claudio Ranieri var rekinn í febrúar en eftir sigurgönguna undir stjórn Shakespeare eru ekki margir að pæla í Ítalanum lengur.

Claudio Ranieri minnti hinsvegar á sig í viðtali við Sky Sports. „Ég get ekki trúað því að leikmennirnir hafi drepið mig. Nei, nei, nei,“ sagði Claudio Ranieri við Sky Sports.

„Kannski var það einhver á bak við mig. Ég átti í smá vandræðum árið á undan þótt að við unnum titilinn. Kannski gat sá hinn sami ýtt meira núna þegar liðið var að tapa,“ sagði Ranieri.

Claudio Ranieri vildi ekki nefna þennan óvin sinn innan félagsins. „Ég hef heyrt margar sögur. Ég vil ekki segja hver þetta er. Ég er tryggur maður. Það sem ég þarf að segja það segi ég auglitis til auglitis,“ sagði Ranieri.

„Mér fannst Sevilla leikurinn vera þar sem liðið byrjaði að snúa þessu við. Allir voru að berjast og Jamie Vardy skoraði. Svo fréttum við af því á heimaleiðinni að ég yrði rekinn. Það var áfall fyrir mig og fullt af öðru fólki,“ sagði Claudio Ranieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×