Handbolti

Fyndnasta sjálfsmark handboltasögunnar? Þetta hlýtur að koma til greina | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Buric.
Benjamin Buric. Vísir/AFP
Það er vel þekkt þegar handboltamarkverðir fagna vel eftir góða markvörslu. Það kemur þó ekki eins oft fyrir að fagnaðarlætin komi hreinlega niður á liði þeirra en það gerðist í bestu handboltadeild í heimi á dögunum.

Benjamin Buric, markvörður Wetzlar í þýsku deildinni, lét þá fagnaðarlætin hlaupa með sig út í ógöngur á dögunum. Hann sofnaði bókstaflega á verðinum og áttaði sig ekki á því hvað var að gerast í leiknum þegar hann hljóp fagnandi um gólfið.

Fyrir vikið tókst liðsfélaga hans að skora afar vandræðalegt sjálfsmark. Lausasta skot leiksins, sem var í raun sending á Buric, varð að óverjandi skoti fyrir Benjamin Buric.

Benjamin Buric áttaði sig alltof seint en liðsfélagi hans sendi boltann aftur á hann þar sem tveir leikmenn Wetzlar voru að skipta á milli varnar og sóknar.

Wetzlar hafði gaman af öllu saman eftir leikinn því liðið náði að landa sigri á móti Minden og því komu þessi vandræðalegu mistök markvarðarins að sök. Þeir settu þetta fyndna myndaband inn á Twitter.

Þetta hlýtur bara að koma til greina sem eitt fyndnasta sjálfsmark handboltasögunnar. Viðbrögð Buric þegar hann áttar sig hvað hefur gerst eru óborganleg.

Benjamin Buric er 196 sm og 26 ára Bosníumaður sem er á sínu frysta ári með HSG Wetzlar en hann lék áður í Slóveníu.

Buric hefur spilað með bosníska landsliðinu frá árinu 2009 og var í marki landsliðsins þegar Bosnía vann Ísland í umspilinu fyrir HM í Katar 2015. Ísland fékk síðan að komast bakdyramegin inn og tapið fyrir Bosníu kom ekki að sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×