Enski boltinn

Ranieri: Valið stóð á milli Clasie og Kanté

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kanté og Clasie eigast við á síðasta tímabili.
Kanté og Clasie eigast við á síðasta tímabili. vísir/getty
Claudio Ranieri, sem gerði Leicester City að Englandsmeisturum á síðasta tímabili, var nálægt því að kaupa hollenska miðjumanninn Jordy Clasie í staðinn fyrir hinn franska N'Golo Kanté sumarið 2015.

Ranieri var gestur í Monday Night Football á Sky Sports í gærkvöldi þar sem hann ræddi m.a. um tímabilið ótrúlega í fyrra.

Eitt af fyrstu verkefnum Ranieris þegar hann tók við Leicester sumarið 2015 var að fylla skarð argentínska miðjumannsins Estebans Cambiasso. Og að sögn Ranieris stóð valið á milli Clasie og Kanté.

„Við misstum Cambiasso, aðalmanninn á miðjunni. Ég reyndi að halda honum en hann vildi fara,“ sagði Ranieri.

„Við vorum með einn landsliðsmann í sigtinu en hann valdi annað félag en Leicester. Þá stóð valið á milli Clasie og Kanté og ég var hrifinn af Kanté og valdi hann.“

Það er óhætt að segja að Ranieri hafi valið rétt því Kanté átti frábært tímabil í fyrra og var einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Kanté hefur svo haldið uppteknum hætti með Chelsea á þessu tímabili en Lundúnaliðið stefnir hraðbyri að enska meistaratitlinum.

Clasie endaði hjá Southampton þar sem hann hefur verið inn og út úr byrjunarliðinu. Hollendingurinn hefur leikið 37 deildarleiki fyrir Southampton og skorað eitt mark.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×