Enski boltinn

Örlög Svananna ráðin án marka Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson svekktur eftir enn einn leikinn sem Swansea mistókst að skora í. Velska liðið þarf sárlega á mörkum frá íslenska landsliðsmanninum að halda á lokasprettinum.
Gylfi Þór Sigurðsson svekktur eftir enn einn leikinn sem Swansea mistókst að skora í. Velska liðið þarf sárlega á mörkum frá íslenska landsliðsmanninum að halda á lokasprettinum. vísir/Getty
Fyrir rétt rúmum mánuði var Swansea City með jafn mörg stig og Bournemouth og Leic­ester City og ofar í töflunni en bæði Crystal Palace og Hull City. Eftir erfiða mánuði fyrir áramót leit út fyrir að Gylfi og félagar væru á góðri leið með að bjarga sæti sínu í deildinni.

Hlutirnir eru hins vegar fljótir að breytast í boltanum og uppkoma Crystal Palace og Hull City síðustu vikur hefur slegið í takt við stiga- og markaþurrð velska liðsins.

Eftir 1-0 tap fyrir West Ham á laugardaginn er Swansea aftur komið niður í fallsæti. Crystal Palace vann Arsenal 3-0 á mánudagskvöldið og hefur fengið átta fleiri stig en Swansea í síðustu fimm leikjum. Sömu sögu er að segja af Hull þrátt fyrir tap fyrir Manchester City um helgina.

Verður alltaf keyptur í sumar

Gylfi þarf nú örugglega ekki að hafa miklar áhyggjur af því að spila ekki í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabil hvernig sem fer enda mikill áhugi hjá nokkrum úrvalsdeildarliðum að kaupa hann í sumar. Eftir frábæran tíma hjá Swansea væri aftur á móti afar leiðinlegt að skilja við liðið sem Championship-lið.

Það hefur verið algjört stiga- og markahallæri hjá Swansea síðustu vikur og þar hefur vantað það sem hefur haldið liðinu á floti í vetur eða sköpun frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Gylfi kom að marki í sjö leikjum í röð frá 21. janúar til 11. mars og Swansea vann fjóra af þeim og komst alla leið upp í fimmtánda sætið eftir sigur á Englandsmeisturum Leicester City 12. febrúar.

graf/fréttablaðið

729 markalausar mínútur

Gylfi hefur nú ekki skorað í átta leikjum í röð, samtals 729 mínútur, og íslenski landsliðsmaðurinn hefur enn fremur ekki komið að marki í síðustu fjórum leikjum Swansea. Gylfi kom síðast að marki í 2-1 tapi fyrir Hull 11. mars síðastliðinn. Hann hefur nú spilað í 360 mínútur án þess að skapa mark fyrir sitt lið. Síðan er liðinn einn mánuður og á þessum 30 dögum hefur staða Swansea versnað mikið.

Gylfi hefur komið með beinum hætti að 19 af 37 mörkum Swansea-liðsins í ensku úrvalsdeildinni í vetur með því annaðhvort að skora (8) eða gefa stoðsendingu (11) og það þarf því ekki að koma mikið á óvart að liðið hefur ekki skorað mikið í þessum undanförnum fjórum leikjum.

Swansea er aðeins með eitt stig og eitt mark í þessum fjórum síðustu leikjum þar sem Gylfi hefur ekki náð að búa til mark. Á sama tíma hefur liðið farið úr sextánda sæti niður í fallsæti. Það sem er mesta áhyggjuefnið er að Swansea hefur ekki verið að ná í mörg stig í innbyrðisleikjum á móti liðum í neðri hluta deildarinnar eins og Hull City, Bournemouth, Middlesbrough og West Ham.

Missa stigin til fallbaráttuliða

Uppskeran úr leikjum á móti þeim undanfarinn mánuð eru aðeins eitt stig sem kom í markalausu jafntefli við Middlesbrough.

Hinir leikirnir hafa tapast og það boðar ekki gott að bæði missa af stigum og færa um leið helstu keppninautunum mikilvæg stig í innbyrðisbaráttu liðanna um að vera áfram í ensku úrvalsdeildinni 2017-18.

Næsti leikur Gylfa og félaga er á móti Watford um komandi helgi. Þar fær Gylfi tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi – binda enda á þessa fyrrnefndu bið og ná um leið að koma að marki í fyrsta sinn á móti Watford í ensku úrvalsdeildinni. Eitt er víst – Swansea þarf lífsnauðsynlega á því að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×