Enski boltinn

Coutinho hrósar fótboltagáfum Roberto Firmino

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho og Roberto Firmino.
Philippe Coutinho og Roberto Firmino. Vísir/Getty
Brasilíumennirnir Philippe Coutinho og Roberto Firmino breyttu tapi í sigur hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi eftir að þeir komu inn á sem varamenn á móti Stoke. Brassarnir eru miklir mátar og Philippe Coutinho er ekki spar á hrósið þegar að landa hans.

„Roberto er svo klár leikmaður. Hann kemur með þessi skáhöllu hlaup sem eru svo mikilvæg fyrir okkar leik hjá Liverpool,“ sagði Philippe Coutinho um Roberto Firmino í viðtali við opinbera tímarit Liverpool.

„Hann er alltaf til staðar að bjóða sig og hann er alltaf að búa til færi fyrir liðið þó að hann sé ekki að fá alltaf færið sjálfur,“ sagði Coutinho.

„Við erum að spila saman hér og þekkjum hvorn annan vel þegar við förum saman til að spila fyrir Brasilíu. Við þekkjum hreyfingar hvors annars og það er gott að hafa þegar við æfum eða spilum saman,“ sagði Coutinho.

„Roberto er frábær náungi. Hann er mjög góður með boltann og mjög sterkur líkamlega. Hann er kannski ekki eins hávaxinn og sumir framherjar en það sjá allir hvað hann er hraustur. Hann býr til tækifæri fyrir aðra á vellinum með hlaupunum sínum. Þetta er okkur mjög mikilvægt,“ sagði Coutinho.

Philippe Coutinho er með 9 mörk og 6 stoðsendingar í 25 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en Roberto Firmino er með 10 mörk og 9 stoðsendingar. Saman eru þeir því með 19 mörk og 15 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Sadio Mané er hinsvegar markahæstur hjá Liverpool með 13 mörk en Senegalinn hefur einnig gefið 6 stoðsendingar. Mane er meiddur og spilar ekki meira á leiktíðinni og því mun það vera mikið á herðum Philippe Coutinho og Roberto Firmino að skora og búa til mörkin sem koma Liverpool aftur í Meistaradeildina. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×