Enski boltinn

Liverpool tilbúið að borga 35 milljónir punda fyir Uxann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Oxlade-Chamberlain í leik með Arsenal á móti Liverpool.
Alex Oxlade-Chamberlain í leik með Arsenal á móti Liverpool. Vísir/Getty
Liverpool hefur mikinn áhuga á enska landsliðsmanninum Alex Oxlade-Chamberlain og Telegraph slær því upp í morgun að hár verðmiði Arsenal breyti engu um það.

Alex Oxlade-Chamberlain á aðeins tólf mánuði eftir af samningi sínum hjá Arsenal og engar formlegar viðræður um framlengingu eru komnar af stað.

Samkvæmt fyrrnefndum heimildum Telegraph þá ætlar Liverpool að nýta sér þetta. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er það mikill aðdáandi hins 23 ára gamla Oxlade-Chamberlain að hann er tilbúinn að borga fyrir hann 35 milljónir punda eða 4,9 milljarða íslenskra króna.

Oxlade-Chamberlain hefur oftar komið inn á sem varamaður (13) en hann hefur verið í byrjunarliðinu (12) í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Hann var ekki í liðinu í 3-0 tapinu á móti Crystal Palace en spilaði síðustu tuttugu mínúturnar.

Alex Oxlade-Chamberlain er með 6 mörk og 8 stoðsendingar í 39 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu. Í 21 leik hefur hann verið í byrjunarliðinu.

Margir Arsenal-menn eru ekki búnir að gleyma því þegar Arsenal seldi Robin van Persie til Manchester United fyrir 24 milljónir punda í ágúst 2012 þegar hollenski framherjinn var á síðasta ári samnings síns. Van Persie skoraði 27 mörk fyrir United á tímabilinu og hjálpaði liðinu að vinna enska meistaratitilinn.

Oxlade-Chamberlain er ekki eini leikmaður Arsenal þar sem framtíðin er óviss. Alexis Sanchez hefur verið orðaður við PSG, Manchester City og Chelea og þá er búist við því að Mesut Özil verði líka seldur.

Ofan á þetta bætist það við að knattspyrnustjórinn Arsene Wenger hefur ekki formlega tilkynnt um framtíð sína í starfi þó flestir búist við því að hann haldi áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×