Enski boltinn

Lukaku ekki stærri en félagið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Romelu Lukaku fagnar marki í leik með Everton.
Romelu Lukaku fagnar marki í leik með Everton. vísir/getty
Everton-goðsögnin, Leon Osman, segir að ef Romelu Lukaku, skærasta stjarna liðsins í dag, ákveði að fara þá verði liðið að sætta sig við það og halda áfram.

Osman spilaði rúmlega 350 leiki fyrir Everton áður en hann var leystur undan samningi hjá liðinu síðasta sumar, en Osman er orðinn 35 ára gamall.

Mikið hefur verið rætt um framtíð belgíska framherjans, Romelu Lukaku, og talið er að ef Everton nái ekki Meistaradeildar-sæti rói hann á önnur mið.

„Í fullkomnum heimi halda þeir Romelu Lukaku," sagði Osman við Premier League Daily. „Þú heldur mörkunum sem hann er að skora og reynir að búa til liðið í kringum hann."

„Þú þarft markaskorara til að komast upp töfluna. Þú þarft mann sem er að fara skora 20 mörk plús á tímabili til að vera nær toppinum og á þessum tímapunkti er hann að gera það."

Lukaku hefur skorað 23 mörk í 31 leik í vetur og farið algjörlega á kostum í liði Everton sem er í sjöunad sæti deildarinnar með 54 stig, jafn mörg stig og Arsenal sem er í sætinu fyrir ofan. Lundúnarliðið á þó tvo leiki til góða.

„Ef hann myndi snúast og segja að hann væri að fara og myndi ákveða það, þá gengur félagið áfram. Enginn er stærri en félagið," sagði Osman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×