Enski boltinn

Milner: Meistaradeildarsætið undir okkur komið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Milner hugsi eftir leik Liverpool á dögunum.
Milner hugsi eftir leik Liverpool á dögunum. vísir/getty
James Milner, einn lykilmaður Liverpool, segir að það sé undir þeim sjálfum komið að tryggja félaginu Meistaradeildarsæti að ári.

Liverpool er í ágætis stöðu þegar liðið á eftir að spila sex leiki, en þeir eru í þriðja sætinu með 63 stig. Liðin þrjú fyrir neðan þá; Man. City, Man. Utd og Arsenal eiga þó öll leiki til góða.

„Í stöðunni sem við erum í skiptir ekki máli hvað önnur lið hugsa eað gera. Við vitum það að ef við klárum okkar leiki, verður það nægilega gott er ég viss um. Þetta er undir okkur komið," sagði Milner.

„Við viljum ekki fara af sporinu eða þurfa að hafa áhyggjur af öðrum úrslitum. Vonandi, getum við séð um okkur sjálfir."

Liverpool vann afar mikilvægan sigur á Stoke um helgina, en þá kom liðið til baka eftir að hafa lent undir og vann leikinn. Mikil meiðsli eru að hrjá liðið núna og margir leikmenn meiddir.

„Við erum með meiðsli allstaðar í liðinu. Þetta er sá tími ársins og þú verður bara sætta þig við það og halda áfram," sagði Milner og hélt áfram:

„Það er þó einn hlutur sem verður aldrei sagt um þennan hóp; að við töpum neistanum og viljanum til að vinna. Við höfum komið til baka og viljinn til að koma til baka og ná í þrjú stig er þarna."

Liverpool mætir WBA á heimavelli á sunnudag, en liðið verður að vinna þann leik ætli liðið sér að halda Meistaradeildarsæti út tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×