Lífið

Það þýðir ekkert að vorkenna sjálfri sér

Guðný Hrönn skrifar
Inga Hrönn Ásgeirsdóttir fékk áhuga á líkamsrækt í kringum fermingaraldur og þá varð ekki aftur snúið.
Inga Hrönn Ásgeirsdóttir fékk áhuga á líkamsrækt í kringum fermingaraldur og þá varð ekki aftur snúið. vísir/stefán
Í byrjun mánaðar bar Inga Hrönn Ásgeirsdóttir sigur úr býtum í sínum flokki á Oslo Grand Prix fitness-mótinu. Ekki nóg með að Inga hafi unnið sinn flokk heldur vann hún líka „overall“ keppnina. Inga segir gott skipulag vera lykilinn

„Mótið í ár var það stærsta hingað til með um 340 keppendur. Ég keppi í fitness-flokki kvenna og vann þann flokk. Ég vann „over­all-ið“ líka en það er þegar sigurvegarar úr hverjum hæðar- eða aldursflokki eru bornir saman í lok mótsins, stigahæsti keppandinn þar er þá heildarsigurvegari mótsins. Þannig að þetta var mjög stór sigur og maður er alveg í skýjunum yfir þessu,“ segir Inga Hrönn Ásgeirsdóttir um mótið sem hún vann á dögunum.

Spurð út í hvað sé skemmtilegast annars vegar og erfiðast hins vegar við sportið segir Inga Hrönn: „Það skemmtilegasta við sportið er bara að sjá þessar breytingar á líkamanum, það er magnað að fylgjast með því hvernig maður getur mótað líkamann með þessum hætti. Það erfiðasta er náttúrulega niðurskurðurinn sem hefst tólf vikum fyrir mót. Þá fer maður að skera niður hitaeiningar, en þó ekki þannig að maður verði neitt svangur. Ég er alveg að borða á tveggja tíma fresti yfir daginn en fæðið er einhæft og leiðinlegt. Ég er algjör nammigrís svo ég vakna yfirleitt á hleðsludögum, sem sagt nammidögum, eins og barn á jólum! Ég missi mig samt ekkert,“ segir Inga Hrönn og hlær.

„Ég myndi segja að skipulag væri númer 1, 2 og 3 en forgangsröðun númer 4,“ segir Inga Hrönn spurð út í hver galdurinn sé á bak við að ná góðum árangri. „Þú þarft í fyrsta lagi að vilja ná árangri því þetta tekur hellingstíma og þú þarft að vera tilbúinn að fórna ýmsu.“

„Maður má ekki detta í þann pakka að fara að vorkenna sér af því að maður má ekki fá sér súkkulaðiköku með kaffinu, maður þarf bara að minna sig á að það má alveg borða þessa köku, en maður kýs að gera það ekki á þessum tímapunkti. Svo þarf maður að skipuleggja nokkra daga fram í tímann, elda máltíðir fyrir næstu daga og raða æfingum í kringum vinnu og fjölskyldu.“

„Svo skemmir auðvitað ekki að vera með góða aðila á bak við sig,“ útskýrir Inga Hrönn. Hún segir að mamma hennar og pabbi séu hennar stærstu aðdáendur.

Vaknar klukkan 6.00 og er sofnuð fyrir 22.00Inga hefur náð góðum tökum á skipulaginu þrátt fyrir að það sé mikið að gera hjá henni. „Það er alltaf nóg að gera hjá mér! Ég er í fullri vinnu ásamt því að reka verslunina Momo með mömmu minni. Og ég á sjö ára barn, Óðin Hrafn. Ofan á allt er ég nýútskrifuð úr mastersnámi, svo það er aldrei lognmolla í kringum mig.“

Í undirbúningi fyrir mót byrjar dagurinn alltaf snemma hjá Ingu, eða klukkan 6.00. „Þá tek ég morgunbrennslu, ég nenni yfirleitt ekki út í rækt til að brenna svo ég keypti mér þrekstiga sem ég er með í svefnherberginu, voða eðlilegt allt saman. Svo þarf að gefa stráknum morgunmat, útbúa nesti og græja sig í vinnuna. Tvisvar í viku tek ég æfingu í hádeginu, aðra daga erum við mæðginin mætt á æfingu í Egilshöllinni strax eftir vinnu. Eftir vinnu eða æfingu tekur heimanámið og kvöldmaturinn við. Það getur verið hálfgert púsl rétt fyrir mót þar sem það þarf að elda þríréttað á hverju kvöldi. Ég og kærastinn stillum yfirleitt mótin okkar saman þannig að við erum oftast bæði í niðurskurði en erum ekki að borða sama matinn. Sonurinn fær svo bara venjulegan heimilismat. Eftir að Óðinn er kominn upp í rúm þarf að undirbúa næsta dag, svo ég er yfirleitt komin upp í rúm ekki seinna en 22.00,“ útskýrir Inga sem leggur mikla áherslu á að verja góðum tíma með syni sínum. „Ég æfi á morgnana þegar hann er sofandi eða á meðan hann er sjálfur á fótboltaæfingum, þá er ég ekki að taka tíma af „okkar tíma“ til að æfa. En félagslífið situr oft á hakanum, en þegar tími gefst þá reyni ég að hitta vinkonurnar.“

„Ég þarf á þessari rútínu að halda til að mér líði vel bæði andlega og líkamlega. Ég lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum þar sem ég hálsbrotnaði og ég tel að öll þessi hreyfing sé það sem heldur mér gangandi. Ég finn ef ég tek langa hvíld hvernig bólgurnar magnast upp í bakinu og ég hætti að geta snúið höfðinu en það gengur fljótt til baka um leið og ég byrja að hreyfa mig aftur,“ segir Inga.

Fram undan hjá Ingu eru svo frekari keppnir. „Ég er að fara að keppa á Íslandsmeistaramótinu í Háskólabíói á föstudaginn langa og svo stefni ég á Evrópumeistaramót á Spáni í byrjun maí. Ég ætla samt að leyfa mér smá páskaegg eftir mótið hér heima. En eftir mót tek ég svo alltaf smá hvíld, gef líkamanum smá stund til að jafna sig eftir keyrsluna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×