Innlent

Fjárhagsáætlun sveltir Háskóla Íslands

Benedikt Bóas skrifar
Stjórn Félags háskólakennara ákvað á fundi sínum þann 10. apríl ályktun um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2018-2022.
Stjórn Félags háskólakennara ákvað á fundi sínum þann 10. apríl ályktun um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2018-2022. vísir/vilhelm

Stjórn Félags háskólakennara lýsir yfir miklum vonbrigðum með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar tímabilið 2018–2022 þar sem hún viðheldur undirfjármögnun háskólastigsins. Í tilkynningu sem stjórnin sendi frá sér segir að stjórnvöld hafa ítrekað gefið fyrirheit um að fjármögnun háskólastigsins á Íslandi verði í takt við það sem gerist í nágrannalöndum. Með fjármálaáætluninni sé ekki verið að efna þessi fyrirheit.

„Fyrirliggjandi fjármálaáætlun er sérstaklega til þess fallin að grafa undan starfsemi Háskóla Íslands en á síðustu árum hefur skólinn mátt þola umtalsverðan niðurskurð. Ef fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur óbreytt verður ekki möguleiki á auknu framlagi til kennslu og rannsókna, sem hefur mátt þola verulegan niðurskurð síðustu ár,“ segir meðal annars.

Þar er einnig bent á að nái fjármálaáætlunin óbreytt fram að ganga sé hætta á að Háskóli Íslands dragist aftur úr í alþjóðlegum samanburði háskóla, þurfi að minnka námsframboð, fresta nauðsynlegri þróun kennsluhátta og hætta við brýna uppbyggingu innviða rannsókna og nýsköpunar.

Stjórnin skorar á ríkisstjórnina að endurskoða fjárhagsáætlun fyrir 2018-2022 með það í huga að hækka töluvert fjárframlag til háskólastigsins.

„Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni,“ segir enn fremur í tilkynningunni. 
Fleiri fréttir

Sjá meira