Erlent

Rannsaka dauðsfall konu sem glímdi við fæðingarsturlun

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Konan var flutt með sjúkrabifreið vegna alvarlegrar fæðingarsturlunar.
Konan var flutt með sjúkrabifreið vegna alvarlegrar fæðingarsturlunar. vísir/getty
Réttarrannsókn hófst í Bretlandi á þriðjudag vegna dauðsfalls konu sem lést fáeinum dögum eftir að hafa verið haldið niðri með valdi af lögregluþjónum og sjúkraliðum síðla árs 2012. The Guardian greinir frá

Hin látna, Alice Gibson-Watt, var sérfræðingur á sviði gamalla skartgripa og kom meðal annars fram í þáttunum Antiques Roadshow sem sýndir eru á sjónvarpsstöðinni BBC.

Gibson-Watt, sem var 34 ára gömul, ól barn fimm vikum áður en hún lést. Í kjölfar barnsburðarins glímdi hún við fæðingarsturlun, geðrænan kvilla sem lýsir sér meðal annars í hegðunartruflunum, ranghugmyndum, mikilmennskuhugmyndum og ofskynjunum.

Ástandið er afar sjaldgæft en talið er að ein til tvær af hverjum þúsund konum glími við kvillann eftir fæðingu.

Tilfelli Gibson-Watt var alvarlegt en eiginmaður hennar lýsti því meðal annars í réttarsal hvernig hún skreið eftir gólfum á heimili þeirra hjóna og hrópaði í sífellu að dóttir þeirra væri látin.

Þá var Gibson-Watt haldin ranghugmyndum og á að hafa talið að hún ætti í fjarskynjunarsambandi við fimm vikna gamalt barn sitt.

Sjúkralið var kallað til vegna ástands Gibson-Watt og gekk erfiðlega að hafa hemil á henni í sjúkrabifreiðinni. Sjúkraliðar og lögregla héldu henni niðri og þurftu að beisla hana vegna mótspyrnu hennar.

Gibson-Watt fór í hjartastopp fáeinum dögum síðar og var strax í kjölfarið send í aðgerð eftir að í ljós kom að hún hafði hlotið innvortis blæðingar vegna rifu á lifur. Hún lést á gjörgæslu skömmu síðar. 

Sjúkraliði sem aðstoðaði við að halda Gibson niðri í sjúkrabifreiðinni sagði fyrir rétti að hún teldi að enginn viðstaddra hefði tekið svo harkalega á henni að hún hefði getað hlotið innvortis meiðsl sem kunna að hafa dregið hana til dauða.

Réttarrannsókninni mun ljúka í lok apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×