Enski boltinn

Ótrúlegar ellefu mínútur hjá gamla Man. United manninum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Powell á ferðinni með Manchester United.
Nick Powell á ferðinni með Manchester United. Vísir/Getty
Það muna kannski ekki margir eftir tíma Nick Powell hjá Manchester United en hann kom sér aftur inn í umræðuna í gær með frábærri innkomu.

Nick Powell kom þá inná hjá liði sínu Wigan á 66. mínútu þegar liðið var 2-0 undir og þurfti nauðsynlega á stigum að halda í baráttunni fyrir lífi sínu í ensku b-deildinni.

Powell skoraði þrjú mörk og Wifan vann 3-2 sigur á Barnsley. Liðið er nú með 40 stig og fjórum stigum frá öruggu sæti.

Powell byrjaði á því að skora beint úr aukaspyrnu á 71. mínútu, fimm mínútum eftir að hann kom inná, jafnaði metin með skoti af stuttu færi á 72. mínútu og skoraði síðan sigurmarkið á 82. mínútu úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur.

Þrenna á aðeins ellefu mínútum sem færði liðinu þrjú dýrmæt stig í fallbaráttu ensku b-deildarinnar.

Þetta var í annað skiptið á stuttum tíma sem hann kemur inná sem varamaður og skorar sigurmark. Hann gerði það einnig í 3-2 sigri á Rotherham  í leiknum á undan. Það var hans fyrsti deildarleikur síðan 2. janúar.

Manchester United keypti Nick Powell sumarið 2012 fyrir allt að sex milljónir punda og hann skoraði í sínum fyrsta leik fyrir félagið í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa komið inná sem varamaður á móti einmitt Wigan.

Sir Alex Ferguson var hrifinn og fór að tala um möguleikann á því að hann fyllti í skarð Paul Scholes. Powell var ennþá var átján ára og kominn til eins stærsta félags heims.

Það var hinsvegar eina mark hans fyrir Manchester United og hann fékk á endanum frjálsa sölu síðasta sumar eftir að hafa farið á láni tímabilin á undan. 

Nick Powell fagnar eina marki sínu fyrir Manchester United sem kom strax í fyrsta leik.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×