Erlent

Facebook lokaði 30 þúsund frönskum síðum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fyrsta umferð forsetakosninganna í Frakklandi fer fram hinn 23. apríl næstkomandi. Starfsmenn Facebook vilja ekki endurtaka mistökin frá forsetakosningunum í Bandaríkjunum og sitja aðgerðalausir hjá meðan fölskum fréttum og áróðri er dreift í aðdraganda kosninga.
Fyrsta umferð forsetakosninganna í Frakklandi fer fram hinn 23. apríl næstkomandi. Starfsmenn Facebook vilja ekki endurtaka mistökin frá forsetakosningunum í Bandaríkjunum og sitja aðgerðalausir hjá meðan fölskum fréttum og áróðri er dreift í aðdraganda kosninga. vísir/epa
Facebook lokaði í gær 30 þúsund síðum og reikningum í Frakklandi í viðleitni til að sporna gegn fölskum fréttum, tíu dögum fyrir fyrstu umferð forsetakosninganna í Frakklandi.

Um er að ræða viðamestu aðgerð við lokun falskra síðna sem Facebook hefur ráðist í frá upphafi að því er fram kemur í frétt Reuters. Aðgerðin er óvenjuleg því alla jafna tekur Facebook til greina einstakar kvartanir, flokkar þær og bregst við að að loknu ferli.

Facebook þurfti að sæta harðri gagnrýni eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fyrir að bregðast ekki við fölskum síðum sem dreifðu alls kyns áróðri í aðdraganda kosninganna.

Öryggis- og leyniþjónustustofnanir vestanhafs hafa komist að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld hafi skipt sér af forsetakosningunum í þeim tilgangi að hjálpa Donald Trump að bera sigur úr býtum. Embættismenn telja að sambærilegar aðgerðir standi nú yfir í Evrópu til að hjálpa öfgasinnuðum þjóðernisflokkum að ná árangri og til þess að grafa undan Evrópusambandinu.

Þannig var greint frá því í vikunni að bresk rannsókn hefði leitt í ljós að rússneskir og kínverskir tölvuhakkarar hefðu að öllum líkindum tekið niður opinbera vefsíðu um skráningu kjósenda í aðdraganda Brexit atkvæðagreiðslunnar í júní í fyrra.

Mikill þrýstingur hefur verið á Facebook, Twitter, Google og Youtube að bregðast við fölskum fréttum í aðdraganda kosninga í Frakklandi og Þýskalandi. Reuters greinir frá því að helsti hvati þess að Facebook réðst í aðgerðirnar í Frakklandi var markmið um að draga úr fölskum fréttum í aðdraganda forsetakosninga.

Facebook keypti líka og birti heilsíðuauglýsingar í helstu dagblöðum Þýskalands í gær þar sem lesendur fá leiðbeiningar um hvernig eigi að koma auga á falskar fréttir. Tímasetningin birtingarinnar er heldur ekki tilviljun því kosið verður til þýska þjóðþingsins hinn 24. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×