Erlent

Bresk kona stungin til bana í Jerúsalem

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ísraelskar öryggissveitir vöktuðu svæðið á meðan heilbrigðisstarfsmenn hlúðu að konunni.
Ísraelskar öryggissveitir vöktuðu svæðið á meðan heilbrigðisstarfsmenn hlúðu að konunni. Vísir/AFP
Bresk kona var stungin til bana í Jerúsalem í Ísrael fyrr í dag. Hún er talin hafa verið á þrítugsaldri. BBC greinir frá.

Ráðist var á konuna, sem var ferðamaður í borginni, í sporvagni á Tzahal-torgi. Í frétt The Guardian segir að árásarmaðurinn, sem var einnig farþegi í sporvagninum, hafi skyndilega staðið upp og stungið konuna ítrekað í brjóstið.

Mikill mannfjöldi var samankominn á torginu til að fagna föstudeginum langa og páskahátíðinni sem nú stendur yfir. Konan var flutt á sjúkrahús en lést þar af sárum sínum.

Árásarmaðurinn er sagður vera 57 ára gamall Palestínumaður, Gamil Tamimi. Að sögn lögreguyfirvalda var Tamimi nýlega útskrifaður af geðdeild og hafi auk þess verið dæmdur fyrir kynferðis- og heimilisofbeldi. Hann var handtekinn á vettvangi.

Forseti Ísraels, Reuven Rivlin, sagðist „fullur trega vegna árásarinnar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×