Erlent

Karzai fordæmir sprengjuárásina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Reykmökkurinn eftir sprenginguna.
Reykmökkurinn eftir sprenginguna. Nordicphotos/AFP
„Þessi árás var ómannúðleg og grimmileg misnotkun á landi okkar,“ sagði Hamid Karzai, fyrrverandi forseti Afganistans, í gær um sprengjuárás Bandaríkjahers á bækistöðvar ISIS í Nang­arhar-fylki þar í landi í vikunni.

Herinn varpaði stærstu sprengju, svokallaðri móður allra sprengja, sem hann hefur nokkurn tímann notað, að kjarnorkusprengjum undanskildum, á bækistöðvarnar og samkvæmt afganska varnarmálaráðuneytinu féllu 36 skæruliðar í árásinni.

Einna helst var um að ræða kerfi neðanjarðarganga. Samkvæmt talsmanni Ashraf Ghani, forseta Afganistans, var ISIS-herforinginn Siddiq Yar á meðal hinna föllnu. Sagði talsmaðurinn að skæruliðarnir í göngunum hafi komið frá Pakistan og væru að herja á fólk á svæðinu umhverfis bækistöðvarnar.

Abdullah Abdullah, framkvæmdastjóri Afganistans, sagði á blaðamannafundi að fullt samráð hefði verið haft við afgönsku ríkisstjórnina. Reynt hafi verið að forðast að skaða almenna borgara og að það virðist hafa tekist. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×