Erlent

Nítján látnir í Sri Lanka eftir að ruslahaugur féll saman

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drengir í Colombo í Sri Lanka virða fyrir sér ruslahauginn sem olli hræðilegri eyðileggingu.
Drengir í Colombo í Sri Lanka virða fyrir sér ruslahauginn sem olli hræðilegri eyðileggingu. Vísir/Getty
Að minnsta kosti nítján eru látnir, þar af fimm börn, eftir að gríðarstór ruslahaugur féll á heimili þeirra í Sri Lanka á föstudag. BBC greinir frá.

Um fjörutíu heimili eru eyðilögð og fjölda fólks er enn saknað. Íbúar svæðisins í Colombo í Sri Lanka höfðu viðrað áhyggjur sínar yfir haugnum og krafist þess að hann yrði fjarlægður.

Haugurinn var um níutíu og einn metri á hæð en miklar hreyfingar höfðu verið á honum eftir mikil flóð á svæðinu.

AFP fréttaveitan gerir ráð fyrir að um áttahundruð tonnum af rusli hafi verið hent í hauginn á hverjum degi.

„Við heyrðum rosalegt hljóð. Það var eins og þruma,“ sagði íbúi á svæðinu, Kularathna, í samtali við Reuters. „Þakplötur á húsinu okkar brotnuðu. Svart vatn byrjaði að streyma inn.“

Að sögn yfirvalda gætu um tuttugu mans enn verið fastir undir haugnum. Þá er einnig talin mikil mildi að ekki hafi farið verr en töluverður fjöldi íbúa hafði yfirgefið heimili sín skömmu áður vegna elds sem kviknað hafði í haugnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×