Erlent

Þúsundir krefjast þess að Trump skili skattframtali sínu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eins og sjá má var mikið af fólki í göngunni í New York.
Eins og sjá má var mikið af fólki í göngunni í New York. Vísir/EPA
Tugir þúsunda mótmælenda gengu um götur New York borg í dag, sem og í nokkrum tugum borga víðsvegar um Bandaríkin í dag, til þess að krefjast þess að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, geri skattframtal sitt opinbert. BBC greinir frá. 

Mótmælin fóru að sögn skipuleggjenda, fram í meira en 150 borgum í landinu en Trump er fyrsti forsetinn í áratugi til þess að gera skattframtal sitt ekki opinbert, en sá háttur hefur verið á í meira en 40 ár.

Þá var tilgangurinn jafnframt sá að mótmæla ummælum forsetans, en hann hefur áður haldið því fram að honum þyki það ekki mikilvægt fyrir sig að gera þessi gögn opinber.

Engar fregnir bárust af handtökum eða ofbeldi vegna mótmælanna. Stærstu göngurnar fóru fram í New York og Los Angeles, þar sem rúmlega 5000 manns tóku þátt í hvorri borg fyrir sig.

Lýstu margir þeirra einstaklinga sem tóku þátt í mótmælunum, yfir áhyggjum af hagsmunaárekstrum forsetans. Það væri óboðlegt að vita ekki nákvæmlega hvort að forsetinn væri að ganga erinda ákveðinna aðila í starfi sínu.

Þetta eru ekki fyrstu mótmælin sem fara fram gegn forsetanum, en í janúar stóðu þúsundir kvenna um allan heim, meðal annars á Íslandi, fyrir mótmælum gegn honum, sem hlutu gífurlega mikla athygli og mættu fleiri á slík mótmæli, heldur en á innsetningarathöfn forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×