Erlent

Kosið um stjórnskipan Tyrklands: Kannanir sýna að tæpur meirihluti vill auka völd Erdogan

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Erdogan vill að forsetaembættið í Tyrklandi fái meiri völd, á kostnað þingsins.
Erdogan vill að forsetaembættið í Tyrklandi fái meiri völd, á kostnað þingsins. Vísir/EPA
Síðasti dagur kosningabaráttu var í dag í Tyrklandi, þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnskipan landsins verður haldin á morgun. Kosið verður um það hvort auka eigi völd forsetaembættisins, á kostnað þingsins þar í landi. Skoðanakannanir sýna að tæpur meirihluti Tyrkja styður tillöguna, en afar mjótt er á munum.

Forsetinn, Recep Tayyip Erdogan, hefur beitt sér fyrir því að embætti hans fái frekari völd, allt frá því að hluti yfirstjórnar hersins reyndi að fremja valdarán í júlí síðastliðnum eins og alkunna var.

Verði tillaga forsetans samþykkt, er ljóst að hann mun geta setið á valdastóli allt til ársins 2029 en með breytingunum myndi forsetinn getað skipað ráðherra í ríkisstjórn, undirritað forsetatilskipanir, valið dómara í hæstarétt og leyst þing landsins frá störfum.

Þannig myndi forsetinn fara fyrir framkvæmdavaldinu, í stað forsætisráðherrans, líkt og það er nú í Tyrklandi.

Ljóst er að Tyrkir eru klofnir í afstöðu sinni til málsins, en skoðanakannanir sýna að mjótt er á mununum.

Stuðningsmenn tillögunnar segja að hún auðveldi ákvarðanatöku framkvæmdavaldsins og færi stjórnkerfi þess nær stjórnkerfum líkt og þekkjast í Frakklandi og Bandaríkjunum. Þeir segja breytingarnar mikilvægar á ólgutímum líkt og nú, þar sem Kúrdískir aðskilnaðarsinnar, borgarastyrjöld í Sýrlandi og íslamskir hryðjuverkamenn ógni Tyrklandi.

Þeir sem eru tillögunni andsnúnir óttast hins vegar að breytingarnar muni færa Erdogan allt of mikil völd í hendurnar. Þeir hafa bent á að samkvæmt tillögunni verði ekki til staðar þær hindranir í stjórnkerfinu, sem geti haft hemil á forsetanum, líkt og þekkist í Frakklandi og Bandaríkjunum, með þrískiptingu ríkisvaldsins.

Stjórnarandstaðan í Tyrklandi hefur sakað Erdogan um að vilja breyta stjórnkerfi landsins „í eins manns stjórnkerfi.“

Kjörstaðir í Tyrklandi munu opna 07:00 í fyrramálið, á tyrkneskum tíma og munu kjörstaðir loka klukkan 18:00 en talið er að fyrstu tölur muni berast seint annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×