Erlent

Kjörstöðum lokað í Tyrklandi og talning atkvæða hafin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Erdogan, Tyrklandsforseti, á kjörstað í dag. Hann er fylgjandi breytingunum.
Erdogan, Tyrklandsforseti, á kjörstað í dag. Hann er fylgjandi breytingunum. Vísir/EPA
Kosningu er lokið í Tyrklandi og kjörstöðum hefur þar með verið lokað, en talning atkvæða hefur hafist. BBC greinir frá. 

Atkvæðagreiðslan snýst um hvort breyta eigi stjórnskipan Tyrklands og færa forsetaembættinu aukin völd, á kostnað þingsins. Ef tyrkneska þjóðin segir já, verður Tyrkland að forsetaræði. Stuðningsmenn segja að stjórnkerfi landsins yrði þá líkt því stjórnarfari sem þekkist í Bandaríkjunum og Frakklandi. 

Andstæðingar tillögunnar hafa þó bent á að samkvæmt tillögunni sem kosið er um, yrði stjórnkerfi landsins, ekkert í líkingu við stjórnkerfi Frakklands og Bandaríkjanna, þar sem þrískipting ríkisvaldsins kemur í veg fyrir að forsetinn geti misbeitt valdi sínu. Ekki er gert ráð fyrir því í Tyrklandi í tillögunni sem kosið var um í dag.

Verði hún samþykkt mun forseti landsins geta rofið þing, skipað ráðherra og dómara, auk þess sem hann gæti gefið út tilskipanir. Búist er við fyrstu tölum síðar í kvöld. 

Uppfært kl. 15:25.

Samkvæmt heimildum NTV sjónvarpsstöðvarinnar benda fyrstu tölur til þess að tillagan um stjórnkerfisbreytingar verði samþykkt. Segir í frétt NTV, sem Reuters greinir frá, að 63,2 prósent kjósenda hafi sagt já, en 36,8 prósent séu tillögunni mótfallnir.

Enn á þó eftir telja mun fleiri atkvæði, en talningu um fjórðungs atkvæða er lokið. Verði úrslit kosninganna með þessum hætti, er ljóst að stjórnkerfi landsins verður gjörbreytt, með meiri völdum forsetaembættisins, á kostnað þingsins. 

Uppfært kl. 16:35.

Samkvæmt heimildum Reuters er talningu um 90 prósenta atkvæða nú lokið. Tæpur meirihluti þjóðarinnar, eða 52,8 prósent styður breytingar á stjórnkerfi landsins, en ljóst er að afar mjótt er á munum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×