Erlent

Tæpur meirihluti Tyrkja samþykkti að auka völd forsetans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Erdogan er sigurvegari dagsins og mun hann nú fá aukin völd í hendurnar.
Erdogan er sigurvegari dagsins og mun hann nú fá aukin völd í hendurnar. Vísir/EPA
Kjósendur í Tyrklandi, samþykktu með tæpum meirihluta í dag, að breyta stjórnskipan landsins og færa forsetaembættinu meiri völd, á kostnað þingsins í landinu. Um er að ræða mestu breytingar á stjórnkerfi landsins í 94 ár, eða síðan lýðveldið Tyrkland var stofnað árið 1923.

Þetta varð ljóst eftir að talningu á 95 prósentum atkvæða á kjörstöðum lauk nú fyrir stundu, en 51,7 prósent kaus með tillögunni, á meðan 48,3 prósent kaus á móti henni. Afar mjótt var því á munum og ljóst að tyrkneska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til málsins.

Samkvæmt upplýsingum Reuters fréttaveitunnar, lítur út fyrir að meirihluti fólks í þremur stærstu borgum Tyrklands, Istanbúl, Ankara og Izmir hafi kosið gegn tillögunni, ásamt borgum þar sem Kúrdar eru í meirihluta, á meðan fólk í sveitum Tyrklands studdi tillöguna frekar.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar þýða því að Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, mun fá aukin völd. Stuðningsmenn forsetans hafa að undanförnu róið að því öllum árum að sannfæra Tyrki um að kjósa með tillögunni. 

Hann mun hafa völd til þess að rjúfa þing, skipa ráðherra og dómara, auk þess sem hann mun geta gefið út tilskipanir. Embætti forsætisráðherra verður því eytt út úr stjórnarskrá landsins og forsetinn mun leiða ríkisstjórn, hans í stað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×