Innlent

Fimm grunaðir um aðild að hnífstungunni á Akureyri

Hulda Hólmkelsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins. Vísir/Pjetur
Tveir karlar og ein kona hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 21. apríl næstkomandi vegna hnífstunguárásar í Kjarnaskógi á Akureyri á föstudaginn langa. Einn til viðbótar var handtekinn í tengslum við málið í gær og gerir lögreglan á Akureyri ráð fyrir að sá fimmti verði handtekinn vegna málsins.

Meintur árásarmaður, sem er nýorðinn 18 ára, ásamt pari, tvítugri konu og 27 ára karlmanni, voru handtekin á föstudagskvöld vegna málsins og leidd fyrir dómara á laugardag. Þá var einn til viðbótar handtekinn á laugardag vegna málsins.

Guðmundur St Svanlaugsson, rannsóknarlögreglumaður, segir að enn einn maður sé grunaður um aðild að málinu.

„Við semsagt erum með fjögur í haldi, þar af þrjú sem eru í gæsluvarðhaldi fram á föstudag á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Það vantaði ennþá tvo aðila sem voru þarna á vettvangi, þegar gæsluvarðhaldsúrskurðinn var kveðinn upp og annar þessara aðila var handtekinn í gærkvöldi, þannig það vantar einn.“

Hafið þið ekki hugmynd um hvar hann er?

„Jú þetta er allt að skýrast. Ég reikna nú með því að það verði bara í dag sem við náum honum, að öllu óbreyttu.“

Þannig eru fimm einstaklingar grunaðir um aðild að málinu.

„Það verður að spá í hvort þetta hafi verið skipulagt, það bendir allt til þess.“

Maðurinn sem varð fyrir árásinni, var stunginn tvisvar sinnum í lærið og hlaut við það slagæðarblæðingu. Hann var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann fór í sex klukkustunda langa aðgerð.

Guðmundur, segir að árásin hafi verið mjög alvarleg og að rannsókn málsins sé í fullum gangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×