Erlent

Erdogan tekur ekkert mark á gagnrýni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Erdogan, Tyrklandsforseti.
Erdogan, Tyrklandsforseti. Vísir/EPA
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hafnar ásökunum og lætur sér fátt um finnast, vegna gagnrýni sem borin hefur verið á fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í Tyrklandi í gær. BBC greinir frá.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni studdi naumur meirihluti Tyrkja viðamiklar breytingar á stjórnkerfi landsins, sem gerir forsetaembættið valdameira, á kostnað þingsins.

Fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur verið gagnrýnt víða, meðal annars af forsvarsmönnum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og af Evrópuráðinu.

Þannig hefur til að mynda verið gagnrýnt að andstæðingar tillögunnar hafi ekki fengið sömu tækifæri til að tjá sig um skoðanir sínar, líkt og stuðningsmenn hennar. Þá hafi það verið óeðlilegt að forsetinn sjálfur og æðstu ráðamenn í Tyrklandi hafi beitt sér í jafn miklum mæli fyrir þessum niðurstöðum og raun bar vitni.

Þá hafi það einnig verið óeðlilegt að fjármagn á vegum tyrkneska ríkisins hafi verið nýtt til þess að sannfæra kjósendur um að kjósa með tillögunni, auk þess sem að ítrekað hafi verið vegið að orðspori andstæðinga tillögunnar, með því að gefa í skyn að afstaða þeirra gæti á einhvern hátt aðstoðað hryðjuverkamenn.

Í ávarpi frammi fyrir stuðningsmönnum sínum í Ankara, segir Erdogan að „Tyrkir muni ekki taka mark á ábendingum erlendra aðila, sem augljóslega séu settar fram í pólitískum tilgangi.“

Hann segir að þeir aðilar „ættu að þekkja sinn stað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×