Innlent

Hnífstungumálið í Kjarnaskógi: Krefjast ekki gæsluvarðhalds yfir fimmta manninum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins. Vísir/Pjetur
Lögreglan hefur lokið við að yfirheyra fimmta manninn sem hún handtók í gær í tengslum við hnífstungumál sem kom upp á föstudaginn langa.

Ekki verður krafist gæsluvarðhalds yfir manninum að sögn Guðmundar St. Svanlaugssonar, rannsóknarlögreglumanns á Akureyri, og er maðurinn því nú laus úr haldi. Hann hefur þó enn stöðu sakbornings líkt og maður sem handtekinn var á laugardaginn og sleppt í gær að lokinni yfirheyrslu.

Þrír eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins, tveir karlar og ein kona, og verða þau að minnsta kosti í haldi fram á föstudag. Einn þeirra er grunaður um að vera árásarmaðurinn í alvarlegri líkamsárás í Kjarnaskógi á föstudag.

Maður var þá stunginn tvívegis í lærið með því sem vitni hafa lýst sem „rambóhníf.“ Blæddi mjög mikið úr manninum og þurfti hann að fara í sex klukkustunda langa aðgerð í kjölfarið. Hann er úr lífshættu.

Að sögn Guðmundar miðar rannsókn málsins vel og býst hann við að henni ljúki fljótlega. Hann vill ekkert gefa upp um það hvert var tilefni árásarinnar og þá vill hann heldur ekki tjá sig um það hvort að lögreglan hafi vopnið undir höndum sem hinn grunaði á að hafa beitt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×