Innlent

Sterkasta Reykja­víkur­skák­mótið í 53 ár

Svavar Hávarðsson skrifar
Friðrik Ólafsson lék fyrsta leikinn í skák ofurstórmeistarans Anish Giri og Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra í fjöltefli í gær.
Friðrik Ólafsson lék fyrsta leikinn í skák ofurstórmeistarans Anish Giri og Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra í fjöltefli í gær. vísir/anton brink

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið sem hefst í dag verður hið sterkasta og fjölmennasta í 53 ára sögu þess. Alls eru um 280 skákmenn skráðir til leiks frá um 45 löndum. Þar af eru 35 stórmeistarar og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Um 180 erlendir skákmenn taka þátt í mótinu. Fleiri en nokkru sinni fyrr. Flestir þeirra koma frá Bandaríkjunum, Indlandi og Kanada. Góð þátttaka Færeyinga vekur athygli en þeir eru 12 talsins.

Mótshaldarar segja að Reykjavíkurskákmótið sé frekar skákhátíð en skákmót. Efnt er til alls konar sérviðburða meðan mótið fer fram, fjöltefli ofurstórmeistarans, sterkasta þátttakanda í sögu mótsins, Anish Giri, var í gær. En meðal annarra sérviðburða eru fyrirlestrar, hraðskákmót, barnahraðskákmót, spurningakeppni (pub quiz), fótboltamót skákmanna, kotru­mót og ferð um gullna hringinn með viðkomu við leiði Bobbys Fischer.

Nærri 100 íslenskir skákmenn taka þátt í mótinu nú og þar á meðal þrír stórmeistarar. Stigahæstur þeirra er Hannes Hlífar Stefánsson, sigursælasti skákmaður í sögu Reykjavíkurskákmótanna.

Það sætir tíðindum að Jóhann Hjartarson tekur nú þátt í mótinu í fyrsta skipti í 21 ár og sá þriðji er Þröstur Þórhallsson. Sjö íslenskar skákkonur taka þátt. Fyrir þeim fer Lenka Ptácníková, stórmeistari kvenna og margfaldur Íslandsmeistari. Alþjóðlegu meistararnir Guðmundur Kjartansson, Bragi og Björn Þorfinnssynir taka þátt og það gerir einnig Vignir Vatnar Stefánsson, okkar efnilegasti skákmaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×