Erlent

„Hann vildi drepa eins marga og hann gat“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hinn grunaði heitir Kori Ali Muhammad.
Hinn grunaði heitir Kori Ali Muhammad. getty/lögreglan í fresno
Þrír menn voru myrtir og sá fjórði særðist þegar maður hóf skothríð í borginni Fresno í Kaliforníu í nótt. Lögreglan á staðnum segir að morðinginn, sem var svartur, hafi stjórnast af hatri í garð hvítra, en fórnarlömbin voru öll ljós á hörund.

Maðurinn sem grunaður er um árásina heitir Kori Ali Muhammad. Í frétt BBC segir að hann hafi skotið sextán skotum á níutíu sekúndum áður en lögreglan handtók hann. Þá hrópaði hann „Allah er mikill“ á arabísku.

Lögregla telur þó víst að morðin hafi sprottið af kynþáttahatri og að engin tengsl séu á milli mannsins og hryðjuverkasamtaka. Muhammad hafði verið leitað frá því í síðustu viku eftir að hann skaut öryggisvörð til bana í borginni.

„Hann vildi drepa eins marga og hann gat,“ er haft eftir lögreglustjóranum Jerry Dyer á vef BBC.

„Þetta var handahófskennt ofbeldisverk og tilefnislausar árásir af hendi manns sem ætlaði sér að drepa í dag,“ segir Dyer.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×