Enski boltinn

Fullyrt að Hart fari til Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Hart hefur spilað í ítölsku deildinni í vetur.
Joe Hart hefur spilað í ítölsku deildinni í vetur. Vísir/Getty
Framtíð enska landsliðsmarkvarðarins Joe Hart virðist í óvissu en ólíklegt er að hann verði áfram í láni hjá Torino á Ítalíu.

Hart var lánaður til Torino síðastliðið haust eftir að Pep Guardiola, nýr stjóri Manchester City, fékk Claudio Bravo til liðsins sem nýjan aðalmarkvörð.

Hart á enn tvö ár eftir af samningi sínum við City en Torino mun ekki hafa efni á því að kaupa leikmanninn, sem er sagður kosta 20 milljónir punda, jafnvirði 2,8 milljarða króna.

Það er enska götublaðið The Sun sem fullyrðir að Liverpool muni í sumar kaupa Joe Hart frá City, þrátt fyrir að Simon Mignolet hafi átt ágæta leiki í marki Liverpool síðustu vikurnar. ESPN svaraði fréttinni og hafði eftir ónefndum heimildum að Liverpool hefði engan áhuga á að fá Hart í sínar raðir.

Hart, sem fagnar 30 ára afmæli sínu í dag, var lánaður til Ítalíu þar sem forráðamenn City voru ekki reiðubúnir að leyfa honum að fara til keppinauta sinna í ensku úrvalsdeildinni. Sú afstaða hefur mildast og er líklegt að City sé nú reiðubúið að sleppa tökunum af Hart.

Hart er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Torino sem er í níunda sæti ítölsku 1. deildarinnar með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×