Lífið

Ólíklegasta stjörnupar samtímans: Pamela Anderson og Julian Assange

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Julian Assange og Pamela Anderson koma úr ólíkum áttum, en það stöðvar ekki ástina.
Julian Assange og Pamela Anderson koma úr ólíkum áttum, en það stöðvar ekki ástina. Vísir/Getty
Svo virðist vera sem nýjasta stjörnuparið hafi litið dagsins ljós, en fregnir herma að hin víðfræga leikkona Pamela Anderson og Julian Assange, stofnandi Wikileaks séu nú byrjuð að stinga saman nefjum. Ljóst er á dagsetningum erlendra frétta um málið, að ekki er um svokallað aprílgabb að ræða. 

Á bloggsíðu sinni hefur leikkonan meðal annars tjáð sig um ást sína á Assange, nú síðast einungis fyrir tveimur dögum síðan, þar sem hún tekur fram að samband þeirra sé „ekkert leyndarmál“ og að hann sé „einn af hennar uppáhalds manneskjum.“ 

Julian hefur frá því árið 2012 haldið sig innandyra í sendiráði Ekvador í London, til þess að forðast að vera framseldur til Svíþjóðar, þar sem hans bíður ákæra fyrir nauðgun en Assange hefur frá upphafi sagst vera saklaus og að um væri að ræða tilraunir Bandaríkjamanna til að koma í veg fyrir starfsemi hans.

Leikkonan sást fyrir rúmum fimm mánuðum síðan ganga inn í sendiráðið, þar sem hún færði Julian hádegismat. Á bloggsíðu sinni kemur Pamela honum til varnar og tekur undir ásakanir hans á hendur bandarískra stjórnvalda.

Pamela hefur þó tekið fram að það sé „pínulítið erfitt“ að hitta mann sem er fastur í sendiráði, líkt og Julian. Framtíðin sé því að vissu leyti óráðin.  Hún hafi þó ekki eytt jafnmiklum tíma með nokkrum öðrum manni að undanförnu og honum.

„Sjáum hvað setur þegar hann er frjáls. En ég eyði þrátt fyrir það, mestum tíma með honum, mun meiri en með nokkrum öðrum, sem er kannski skrítið.“

„Julian er manneskja með ákaflega mikinn tilfinningaþroska og samkennd. Heimurinn skiptir hann miklu máli. Hann hefur eignast volduga óvini í mörgum löndum, sérstaklega í Ameríku með því að koma upp um þá.“

„Þessi barátta er mjög rómantísk og ég elska hann fyrir þetta. Hann er mjög kynþokkafullur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×