Körfubolti

Ewing snýr aftur heim til Georgetown

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ewing varð NCAA-meistari með Georgetown 1984.
Ewing varð NCAA-meistari með Georgetown 1984. vísir/getty
Patrick Ewing hefur lengi beðið eftir að fá þjálfarastarf í NBA-deildinni eða háskólaboltanum.

Nú er biðin loks á enda því hinn 54 ára gamli Ewing hefur verið ráðinn þjálfari Georgetown háskólans.

Ewing snýr því aftur á fornar slóðir en hann er jafnan talinn besti leikmaður í sögu Georgetown. Ewing lék með Georgetown á árunum 1982-85 og vann einn titil með liðinu. Ewing er næststigahæstur í sögu skólans og þá hefur enginn leikmaður tekið fleiri fráköst eða varið fleiri skot fyrir Georgetown en hann.

Ewing spilaði svo í 17 ár í NBA, þar af 15 ár með New York Knicks. Þá varð hann tvívegis Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu.

Ewing tekur við þjálfarastarfinu hjá Georgetown af John Thompson III sem var rekinn í síðasta mánuði. Hann er sonur og nafni John Thompson Jr. sem þjálfaði Ewing hjá Georgetown á sínum tíma.

„Árin mín hjá Georgetown voru þau bestu í mínu lífi,“ sagði Ewing í yfirlýsingu. „Georgetown er heimili mitt og það er mikill heiður að snúa aftur þangað og þjálfa liðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×