Skoðun

Hvað gerir Bjarni?

Kristján Guy Burgess skrifar
Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði verið forsætisráðherra í tvo mánuði hafði hann átt einkafundi með framkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna og NATO, æðstu ráðamönnum ESB, forsætisráðherrum Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, formanni landsstjórnarinnar á Grænlandi og lögmanni Færeyja. Hann hafði fundað með forseta Finnlands og forsætisráðherra Rússlands. Bjarni Benediktsson hefur nú verið forsætisráðherra jafn lengi en hefur ekki enn átt fund með neinum þjóðarleiðtoga. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með forsætisráðuneytið í hátt í tvo áratugi yfir síðustu aldamót, gættu forsætisráðherrar hans þess að þeir hefðu tökin á efnahagsmálunum og þjóðaröryggismálunum. Nú stýrir Benedikt Jóhannesson efnahagsmálunum og Guðlaugur Þór Þórðarson fer með varnar- og öryggismál.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur á árinu átt fundi með forsætisráðherrum Danmerkur og Noregs og forsetum Eistlands og Rússlands.

Það eru frávik frá íslenskri hefð að forsætisráðherra leiki svo smátt hlutverk í alþjóðasamskiptum þjóðarinnar. Hann gerði vissulega góða ferð til New York og Washington til að vekja athygli á alþjóðlegri jafnréttisbaráttu en á hvorugum staðnum hitti hann æðstu ráðamenn.

En hvað er til ráða?

Framundan eru risastórar áskoranir þar sem forsætisráðherra verður að gera sig gildandi. Samskipti við stærstu útflutningsmarkaði eru að taka miklum breytingum. Það verður að tryggja aðgengi sjávarafurða að breskum markaði, markaðsstöðu íslenskra fyrirtækja í Bretlandi verður að festa, réttindi íslenskra námsmanna í Bretlandi eru í hættu.

Bjarni Benediktsson verður að óska eftir fundi með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, hið fyrsta til að tryggja hagsmuni Íslendinga við útgöngu Breta úr ESB. Í slíkri ferð á hann að hafa með sér sérstaka sendinefnd úr viðskiptalífinu, háskólasamfélaginu og vísindageiranum og hitta í leiðinni alla helstu ráðamenn og hagsmunaaðila. Þá skipuleggi hann fundi með Donald Tusk og Jean-Claude Juncker hjá Evrópusambandinu til að passa upp á að rödd Íslendinga heyrist þegar EES-samstarfið breytist við útgöngu Breta. Það er ekki eftir neinu að bíða, en Bjarni þarf að fara af stað.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×