Viðskipti innlent

Seðlabankinn borgar um milljón í meðallaun

Haraldur Guðmundsson skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Vísir/GVA
Starfsmenn Seðlabanka Íslands fengu að meðaltali um 971 þúsund krónur í mánaðarlaun í fyrra. Launin hækkuðu þá að meðaltali um 101 þúsund krónur á mánuði miðað við árið á undan þrátt fyrir að ársverkum í bankanum hafi fækkað um þrjú eða úr 200 í 197.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Seðlabankans. Samkvæmt honum námu launagreiðslur, fyrir utan lífeyrissjóðsgreiðslur og launatengd gjöld, í fyrra rétt tæpum 2.296 milljónum króna. Heildarlaun Más Guðmundssonar seðlabankastjóra námu þá 24,4 milljónum, eða rétt rúmum tveimur milljónum á mánuði, samanborið við 21,9 milljónir árið 2015. Árslaun Arnórs Sighvatssonar aðstoðarbankastjóra hækkuðu úr 19,8 milljónum í 22,1 milljón í fyrra.

Meðallaun í Seðlabankanum voru 755 þúsund krónur árið 2014. Þau hækkuðu því um 216 þúsund á tveimur árum eða um 28,6 prósent. Már Guðmundsson var þá með 20,3 milljónir í árslaun eða 1,69 milljónir króna á mánuði. Mánaðarlaun seðlabankastjóra hækkuðu því um rétt rúm þrjú hundruð þúsund krónur á tveggja ára tímabili. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×