Handbolti

Guðmundur: Stóð í mótvindi í Danmörku í þrjú ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands og Danmerkur í handbolta,  hélt afar áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur um leið sína og danska landsliðsins að Ólympíugullinu í Ríó á súpufundi HSÍ í dag. Guðmundur hefur haft tíma til að ferðast með fyrirlesturinn þar sem hann lét af störfum hjá danska sambandinu fyrr á árinu.

„Ég gerði þetta 2008 en nú er ég með alveg nýja sýn og er búinn að öðlast meiri reynslu. Svo hef ég í millitíðinni þjálfað á erlendum vettvangi. Þá hefur maður fengið enn meiri reynslu,“ segir Guðmundur.

Sjá einnig:Guðmundur kominn með nýtt starf

Guðmundur sagði í fyrirlestri sínum að Ólympíugullið í Ríó sé toppurinn á 27 ára þjálfaraferli sínum. Hann hefur verið lengi að og leggur mikið á sig en hvernig fer hann að því að brenna ekki út?

„Ég hef sjálfsagt verið stundum nálægt því að brenna út. Stundum hef ég orðið mjög þreyttur. Ég held að það sé þessi ástríða. Ég hef haft svo gaman að þessu og haft ofboðslegan drifkraft og reynt að ná árangri. Ég hef sett mér mjög háleit markmið og hef elskað að fara á eftir þeim.“

Guðmundur hugsar glaðbeittur til baka á tíma sinn með danska liðinu en það var ekkert grín að þjálfa Danina sem stóðu sumir í baknagi á miðjum Ólympíuleikunum.

„Þetta var ofboðslega erfitt tímabil. Ég get alveg sagt það að ég var í mótvindi í tæp þrjú ár. Það helgaðist af því að menn voru ekki á eitt sáttir við hvernig ég var að spila, hvernig varnarleikurinn var og hitt og þetta,“ segir hann.

Þrátt fyrir allt sem var sagt og skrifað gengur Guðmundur sáttur frá borði. „Ég held nú að á endanum er danska þjóðin mjög þakklát og ég finn ekki fyrir öðru þegar ég er á ferðalagi í Danmörku að það er mjög mikill velvilji í minn garð,“ segir Guðmundur Guðmundsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×