Handbolti

Guðmundur: Aðalatriðið er að hafa sett sitt mark á danska íþróttasögu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Guðmundsson gerði danska handboltalandsliðið að Ólympíumeisturum í Ríó á síðasta ári en aldrei áður hafði karlalandslið Danmerkur orðið Ólympíumeistari.

Guðmundur fór yfir leiðina að gullinu í skemmtilegum og áhugaverðum fyrirlestri á súpufundi HSÍ í gær en hann er að fara með þennan fyrirlestur í fyrirtæki bæði hérlendis og erlendis.

Sjá einnig:Guðmundur kominn með nýtt starf

„Ég er búinn að vera víða. Ég er búinn að flytja fyrirlesturinn í Noregi og svo var ég hjá McKinsey-ráðgjafafyrirtækinu úti í Austurríki. Svo hef ég flutt þennan fyrirlestur hér á Íslandi fyrir nokkur fyrirtæki og deilt 27 ára stjórnunarreynslu. Ég hef gaman að þessu og þessu hefur verið afar vel tekið,“ segir Guðmundur.

Guðmundur viðurkennir að stundum hefur hann orðið mjög þreyttur á 27 ára löngum þjálfaraferli en ástríðan fyrir handboltanum og því að vinna til stórra verðlauna heldur honum gangandi.

„Ég hef sett mér mjög háleit markmið og hef elskað að fara á eftir þeim.. Það er í raun það sem ég sá þegar ég tók við danska liðinu. Það var svolítið möguleikinn að vinna stærsta titil í heimi; að verða Ólympíumeistari. Það var heillandi,“ segir hann.

Þjálfarinn magnaði segist hafa staðið í mótvindi sem landsliðsþjálfari Danmerkur í þrjú ár en á Ólympíuleikunum voru menn að fara á bakvið hann og reyna að fá hann rekinn.

„Það gerist ákveðið atvik á Ólympíulekunum sem enginn gat séð fyrir. En ég fer í gegnum þetta og við náum að verða Ólympíumeistarar þannig að þegar ég horfi til baka núna er þetta algjört aukaatriði. Aðalatriðið er það að hafa náð að setja sitt mark á danska íþróttasögu,“ segir Guðmundur.

„Ég fór í þetta verkefni til að gefa allt sem ég kann. Ég gerði það og var heiðarlegur í mínum störfum alla tíð fyrir þetta lið. Ég held nú að á endanum er danska þjóðin mjög þakklát og ég finn ekki fyrir öðru þegar ég er á ferðalagi í Danmörku að það er mjög mikill velvilji í minn garð. Ég held að stærsti hlutinn sé nú þakklátur fyrir þetta,“ segir Guðmundur Guðmundsson.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×