Enski boltinn

Liverpool hefur ekki unnið þegar Mane byrjar ekki og nú er tímabilið búið hjá honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane.
Sadio Mane. Vísir/Getty
Sadio Mane, framherji Liverpool, verður ekki með liðinu í síðustu sjö leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Sadio Mane meiddist á hné í 3-1 sigurleiknum á Everton og knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi í dag að það væri nokkuð ljóst að Mane þurfi að fara í aðgerð.

„Það er næstum því ómögulegt fyrir hann að spila aftur á þessu tímabili,“ sagði Jürgen Klopp á fundinum.

Liverpool keypti Sadio Mane á 34 milljónir punda frá Southampton í sumar og hefur Senegalinn byrjað alla leiki liðsins nema fimm í ensku úrvalsdeildinni.

Sadio Mane hefur spilað mjög vel á sínu fyrsta tímabili á Anfield og er með 13 mörk og 6 stoðsendingar í 27 leikjum.  Liðið saknaði hans mikið þegar hann fór í Afríkukeppnina og mun örugglega sakna hans mikið í síðustu leikjum tímabilsins.

Árangur Liverpool án hans segir líka mikið. Liverpool hefur nefnilega ekki unnið neinn af þeim fimm leikjum sem Sadio Mane hefur ekki verið í byrjunarliðinu.

Af þessum fimm töpuðust tveir en þrír enduðu með jafntefli.

Liverpool er í 3. sæti deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir. Liðið á góða möguleika á Meistaradeildarsæti en má þá ekki tapa stigum eins og á móti Bournemouth um síðustu helgi.  

Ensku landsliðsmennirnir Adam Lallana og Jordan Henderson eru líka meiddir. Þeir eru enn að ná sér og eru ekki að æfa með Liverpool þessa dagana.

Það má sjá meira um tölfræði Liverpool án Sadio Mane með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×