Innlent

Unga fólkið snýr til baka vegna framhaldsskólans

Kristján Már Unnarsson skrifar

Bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir að stofnun Fjölbrautaskóla Snæfællinga í Grundarfirði hafi leitt til þess að ungt fólk snúi aftur heim að loknu háskólanámi. Þetta kom fram í viðtali í fréttum Stöðvar 2 sem sjá má hér að ofan.

Í sjávarbyggðunum á utanverðu Snæfellsnesi eru meðaltekjur á íbúa með þeim hæstu á landinu. Samt hefur gengið illa að halda í unga fólkið. Þannig hafa foreldrar séð vandann:

„Eins og við, - eigum þrjú börn, - og þegar þau fara í skóla í burtu þá koma þau ekki aftur. Það er vandinn í samfélaginu,“ segir Kristín Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Valafells ehf.

En nú sjást merki þess að þetta sé að breytast. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Kristinn Jónasson, segir að stofnun framhaldsskóla í Grundarfirði árið 2004 hafi valdið straumhvörfum. 

Snæfellingar sameinuðust um fjölbrautaskóla í Grundarfirði. vísir/vilhelm

„Fram að þeim tíma var svona 40 prósent af okkar fólki sem kláraði stúdentspróf. Annars staðar á landinu var þetta í kringum 85 prósent. Í dag erum við búin að ná þessari tölu, 85 prósent. 

Síðan fer þetta fólk í háskólanám og kemur síðan heim. Það er stærsta byltingin núna. Við erum að fá vel menntað fólk, sem náði því að vera aðeins lengur heima og er með ennþá sterkari rætur við samfélagið. Það er núna að koma heim, er að kaupa sér hús, og er að fá atvinnu,“ segir bæjarstjóri Snæfellsbæjar. 

Ásókn í íbúðarhúsnæði hefur aukist. 

„Það er vöntun á húsnæði hér í Ólafsvík. Það vantar hús. Það vantar minni íbúðir fyrir unga fólkið. Það hefur verið óhemju sala að undanförnu,“ segir Kristín í Valafelli.

Kristín Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Valafells ehf. Stöð 2/Sigurjón Ólason.

„En svo vantar fjölbreyttari vinnu, sérstaklega fyrir konur sem vilja vinna eitthvað annað og eru að mennta sig í einhverju öðru,“ segir Kristín en sjálf rekur hún fiskverkun og útgerð.

Hún segir muna verulega um störf hjá ríkisstofnunum. 

„Við myndum alveg gjarnan vilja fá meira af ríkisstofnunum til okkar. Það er frekar verið að draga úr því en hitt. Það var til dæmis verið að loka skrifstofunni hjá sýslumanninum, - færa hana út á bæjarskrifstofuna,“ segir Kristín og segir hvert einasta starf skipta máli. 

Bæjarstjórinn sér samt jákvæða þróun.

„Ég er alveg rosalega ánægður með að sjá allt þetta unga fólk sem er að koma heim til baka. Og ég þakka það okkar ágæta framhaldsskóla sem við stofnuðum 2004,“ segir Kristinn Jónasson. 

Fjallað verður um Snæfellsbæ í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 á mánudagskvöld. Hér má sjá myndskeið úr þættinum.
 


Tengdar fréttir

Löngufjörur skópu þörf fyrir reiðhöll

Svo vinsæll er íslenski hesturinn meðal útlendinga að bændurnir á Lýsuhóli á Snæfellsnesi eru búnir að reisa þúsund fermeta reiðhöll til að sýna erlendum ferðamönnum hestinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira