Sport

Daniel Cormier varði beltið á skrítnu UFC kvöldi

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Daniel Cormier fagnar sigrinum.
Daniel Cormier fagnar sigrinum. Vísir/Getty
UFC 210 fór fram í nótt þar sem þeir Daniel Cormier og Anthony Johnson mættust í aðalbardaga kvöldsins. Bardagakvöldið var sérstakt að mörgu leyti og mikið um óvænt úrslit.

Léttþungavigtarmeistarinn Daniel Cormier varði beltið sitt þegar hann kláraði Anthony Johnson með „rear naked choke“ í 2. lotu. Síðast þegar þeir mættust kláraði Cormier bardagann með sömu hengingu en þá í 3. lotu.

Johnson tók þá undarlegu ákvörðun að sækja í fellur sem kom verulega á óvart. Johnson er langhættulegastur þegar hann heldur sér frá andstæðingnum og kemur með þung högg en þarna gerði hann nákvæmlega það sem Cormier vildi. Cormier nýtti tækifærið og vann glímubaráttuna enda hans helsti styrkleiki.

Eftir bardagann tilkynnti Anthony Johnson að hann væri hættur. Johnson er aðeins 33 ára gamall og kom tilkynningin gríðarlega á óvart. Johnson fékk starfstilboð utan MMA heimsins sem hann hreinlega gat ekki hafnað.

Það var þó ekki það undarlegasta í nótt. Bardagi Chris Weidman og Gegard Mousasi endaði með umdeildum hætti. Í 2. lotu fékk Weidman tvö hnéspörk í höfuðið og gerði dómarinn hlé í bardaganum þar sem hann taldi að hnéspörkin hefðu verið ólögleg. Dómarinn taldi að Weidman hefði verið með báðar hendur í gólfinu en það hefði gert hnéspörkin ólögleg.

Þau voru hins vegar lögleg eins og kom í ljós í endursýningu þar sem aðeins önnur hönd Weidman snerti gólfið. Dómarinn hafði þegar gert hlé á bardaganum og kallaði til lækni til að meta Weidman. Læknirinn taldi Weidman óhæfan til að halda áfram og vann því Mousasi eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu.

Gríðarleg óánægja ríkti með þessa niðurstöðu og var Mousasi tilbúinn til að mæta Weidman aftur. Mikið var um óvænt úrslit á kvöldinu en öll önnur úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir

Skuggi Jon Jones hvílir yfir Daniel Cormier

Meistarinn Daniel Cormier mætir Anthony Johnson í aðalbardaga kvöldsins á UFC 210 í nótt. Þrátt fyrir að Cormier endi aftur með beltið um mittið í kvöld eru ennþá margir sem telja hann ekki vera þann besta í flokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×