Erlent

Fjölskylda varð fyrir sýruárás í Lundúnum

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/getty
Karlmaður, kona og tveggja ára drengur urðu fyrir sýruárás í norðurhluta Lundúnum í dag. The Guardian greinir frá.

Sjónarvottar að atburðinum segja að fjölskyldan hafi verið á gangi með drenginn í kerru í Islington-hverfinu í Lundúnum um hádegisbil í dag þegar árásin varð.

Árásarmaðurinn kom að fólkinu og skvetti á það ætandi efni með þeim afleiðingum að það hlaut brunasár af. Áverkar fólksins benda til þess að um sýru hafi verið að ræða.

Fjölskyldan er af kínversku bergi brotin en hefur verðið búsett í norðurhluta Lundúna til langs tíma. Kunningjar fjölskylduföðurins segjast fullvissir um að árásin hafi verið skipulögð og beinst sérstaklega að honum.

Islington er stórt hverfi í norðurhluta Lundúna.vísir/googlemaps
Lögregla ásamt sjúkraliði var kölluð á vettvang eftir atlöguna og var fjölskyldan flutt á sjúkrahús með hraði.   

Breska rannsóknarlögreglan fullyrti í samtali við The Guardian að áverkar fjölskyldunnar væru ekki lífshættulegir. Brunasár þeirra voru helst á höndum og andliti.

Móðirin og drengurinn sluppu með minniháttar meiðsl en læknar telja að faðirinn komi til með að hljóta varanleg lýti vegna brunans.

Lögregla leitar enn tilræðismannsins.

Sýruárásir tíðkast í mörgum ríkjum Asíu. Hér lítur kambódískt fórnarlamb á andlit sitt í spegli.vísir/getty
Sýruárásir eru algengar í nokkrum ríkjum Asíu, sér í lagi á Indlandi, Bangladess og í Pakistan. Stjórnvöld í ríkjunum þremur hafa gripið til lagabreytinga til þess að stemma stigu við faraldrinum.

Indverjar hafa skilgreint sýruárásir sérstaklega í innlendri refsilöggjöf og er lágmarksrefsing fyrir slíkt brot tíu ár. Í Bangladess geta þeir sem sakfelldir eru fyrir sýruárás átt yfir höfði sér dauðarefsingu.

Þrátt fyrir að árásir af þessu tagi séu fátíðari í Evrópu þrefaldaðist fjöldi sýruárása í Bretlandi frá árunum 1996 til 2012. Árið 2012 var tilkynnt um 144 árásir vegna sýru eða annarra ætandi efna þar í landi. Sérfræðingar telja að stór hluti þessara tilvika komi upp meðal asískra innflytjenda í Bretlandi.

Oftar en ekki skilja árásir, þar sem ætandi efnum er beitt, eftir sig varanleg ör sem geta verið skaðleg sálarlífi fórnarlambanna. Alvarlegar sýruárásir geta jafnframt leitt til dauða. Þrátt fyrir það eru sýruárásir skilgreindar sem alvarlegar líkamsárásir en ekki tilraun til manndráps í breskum lögum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×