Erlent

Þrettán ára stúlka ákærð fyrir að sviðsetja eigin dauða á Snapchat

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Stúlkan færði drengnum fregnir af andláti sínu í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat.
Stúlkan færði drengnum fregnir af andláti sínu í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat. vísir/getty
Þrettán ára stúlka í Michigan-fylki í Bandaríkjunum hefur verið ákærð fyrir að hafa sviðsett eigin dauða með þeim afleiðingum að ellefu ára gamall kærasti hennar svipti sig lífi.

Að sögn Matt Wiese, saksóknara í Marquette-sýslu í Michigan er á stúlkan að hafa sent drengnum myndskilaboð í gegnum Snapchat af öðrum reikningi þar sem hún tilkynnti honum um eigin dauða.  

Drengurinn, Tysen Benz, fyrirfór sér innan tveggja klukkustunda frá því að honum bárust tíðindin.

„Það má segja að það sé orsakasamband milli skilaboðanna og þess sem hann gerði,“ fullyrti Wiese í samtali við The Washington Post.

Móðir Amöndu Todd, sem fyrirfór sér vegna neteineltis 2012 á blaðamannafundi í Amsterdam í febrúar síðastliðnum.vísir/getty
Stúlkan hefur ekki verið nafngreind en hún hefur meðal annars verið ákærð fyrir að notfæra sér fjarskiptatækni til illra verka. Hún á yfir höfði sér allt að eins árs vistun í ungmennafangelsi.

Fjölskylda Benz hefur staðfest í samtali við fjölmiðla vestanhafs að ekkert hafi amað að drengnum þegar hann kom heim úr skólanum skömmu áður en hann svipti sig lífi. Atvikið átti sér stað þann 14. mars en drengurinn lést af sárum sínum í gær.

Móðir drengsins sagði í samtali við Associated Press að hún hyggðist vekja athygli á neteinelti og slæmum afleiðingum þess í kjölfar harmleiksins.

„Ég vil að það sé vakið máls á þessu [neteinelti] og þetta afhjúpað. Ég vil ekki að svona lagað verði hunsað,“ sagði hún.

Í desember síðastliðnum fyrirfór átján ára stúlka sér í Texas vegna neteineltis sem hún hafði orðið fyrir um langa hríð. Skólafélagar hennar höfðu meðal annars stofnað reikning í hennar nafni á stefnumótasíðum á netinu þar sem þeir gáfu upp símanúmer hennar og sögðu hana stunda kynlíf án endurgjalds.

Þá er mörgum minnistætt sjálfsvíg Amöndu Todd árið 2012 en hún birti myndband á Youtube þar sem hún lýsti hörmulegu einelti sem hún hafði orðið fyrir á netinu. Móðir hennar, Carol Todd, berst nú ötullega gegn neteinelti. 


Tengdar fréttir

Svipti sig lífi eftir neteinelti

Fjörutíu og níu ára bandarísk kona var í gær ákærð fyrir að hafa orðið völd að sjálfsvígi þrettán ára nágrannastúlku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×