Körfubolti

Hrafn: Sýndum af okkur háðuglega frammistöðu sem lið

Ingvi Þór Sæmundsson í Ásgarði skrifar
Hrafni var ekki skemmt í Garðabænum í gær.
Hrafni var ekki skemmt í Garðabænum í gær. Vísir/Ernir
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var afar ósáttur með frammistöðu sinna manna í tapinu fyrir Grindavík í kvöld og dró hvergi undan eftir leik.

„Ég ætla ekki að segja að ég sé sleginn en ofboðslega ósáttur við frammistöðuna og hvernig við bárum okkur í þessum leik,“ sagði Hrafn sem sagði að sínir menn hefðu einfaldlega ekki mætt til leiks, þótt þeir hafi leitt með þremur stigum, 21-18, eftir 1. leikhluta.

„Við byrjuðum aldrei og vorum aldrei nokkurn tímann með í þessum leik. Við litum kannski út fyrir að stoppa þá en við gáfum þeim skotin sem þeir vildu fá. Við vorum linir og komum ekki við þá.“

Stjarnan spilaði vel í einvíginu gegn ÍR í síðustu umferð en það var allt annað uppi á teningnum í kvöld.

„Við vissum að við vorum að fara að spila við betra lið. Við vissum að við þyrftum að sýna að við vildum þetta jafn mikið og taka vel á þeim. Mér fannst við ekki sýna það af okkur í dag,“ sagði Hrafn.

„Mér fannst líkamstjáningin okkar ömurleg. Fljótlega eftir að það var ljóst að þeir ætluðu að gefa okkur leik fannst mér líkamstjáning nokkurra leikmanna minna gefa það til kynna að þeim fyndist þetta vera einn af þessum leikjum. Við erum staddir í undanúrslitum á móti frábæru liði og ef við getum ekki verið sárir og sýnt metnað fyrir þessu erum við ekki að fara að gera neitt.“

Hrafn segist ekki geta tekið neitt jákvætt út úr leiknum í kvöld.

„Við sýndum af okkur háðuglega frammistöðu sem lið og þjálfarar. Við þurfum að vinna okkur út úr þessu sem lið og ég held að það sé ekkert unnið með því að rífa út einhverja broskalla,“ sagði Hrafn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×