Körfubolti

Uppgjörsþáttur Körfuboltakvölds í opinni dagskrá og í beinni á Vísi í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kjartan Atli Kjartansson og félagar verða í stuði í kvöld.
Kjartan Atli Kjartansson og félagar verða í stuði í kvöld. vísir

Síðasti hefðbundni þáttur tímabilsins af Domino´s-Körfuboltakvöldi er á dagskrá í kvöld á Stöð 2 Sport HD en hann verður í beinni útsendingu frá Viking Brugghúsi klukkan 21.15. Þátturinn verður í opinni dagskrá og í beinni á Vísi.

Deildarkeppninni lauk í gær með mikilli dramatík og verður seinni hluti tímabilsins gerður upp í þætti kvöldsins. Úrvalsliðið verður valið sem og besti leikmaðurinn, besti ungi leikmaðurinn, besti varnarmaðurinn og þá kemur í ljós hver eru tilþrif ársins.

Búið er að klippa til allt það fyndnasta og besta frá vetrinum sem verður sýnt í þættinum, allt frá ógleymanlegum viðtölum til óborganlegra atriða sérfræðinganna í vetur og allt þar á milli.

Hlaupið verður á hundavaði yfir 22. umferðina sem lauk í gær og aðeins kíkt á úrslitakeppnina en þátturinn verður annars á léttu nótunum er deildarkeppnin verður gerð upp í máli og myndum.

Eins og alltaf þegar Körfuboltakvöld bregður undir sig betri fætinum verður tónlistaratriði en að þessu sinni verður það rímnasmiðurinn úr Kópavoginum, Herra Hnetusmjör, sem tekur lagið.

Körfuboltakvöld verður svo á ferð og flugi í úrslitakeppninni eins og í fyrra og sendir út beint frá íþróttahúsum landsins og fylgir tímabilinu eftir allt þar til Íslandsmeistarabikararnir í karla- og kvennaflokkir eru farnir á loft.

Ekki missa af uppgjöri Domino´s-Körfuboltakvölds í beinni frá Viking Brugghúsi klukkan 21.15 á Stöð 2 Sport HD í kvöld í opinni dagskrá og á Vísi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira