Körfubolti

Þjálfari Njarðvíkur: Kvartanir út af Tyson-Thomas komu úr öllum áttum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyson-Thomas skoraði að meðaltali 36,7 stig í leik með Njarðvík í vetur.
Tyson-Thomas skoraði að meðaltali 36,7 stig í leik með Njarðvík í vetur. vísir/anton

Agnar Már Gunnarsson, þjálfari Njarðvíkur í Domino's deild kvenna í körfubolta, vandar Carmen Tyson-Thomas ekki kveðjurnar í samtali við Karfan.is.

Eins og greint var frá á Vísi í kvöld hefur samningi Tyson-Thomas við Njarðvík verið sagt upp. Ástæðan eru samskiptaörðugleikar.

„Það var ekki lengur við unað. Samstarfið við hana hefur verið erfitt og þetta er uppsafnað.  Hún gerði lítið úr liðsfélögum sínum við skiptingar og hristi hausinn þegar þær voru að skjóta. Kvartanir vegna hennar komu úr öllum áttum og ég gerði þau mistök að hafa ekki tekið á þessu fyrr. En ég læri af þessu,“ sagði Agnar í samtali við Karfan.is.

Tyson-Thomas hefur verið í sérflokki í liði Njarðvíkur í vetur en hún skilaði 36,7 stigum og 16,5 fráköstum að meðaltali í leik.

„Hún fór ekki eftir því plani inná vellinum sem lagt var upp með og fór sínar eigin leiðir í því.  Þú getur verið besti körfuknattleiksmaður heims og skorað körfur í öllum regnboganslitum en þegar þú álítur sjálfan þig stærri en klúbbinn þá er engin ómissandi,“ sagði Agnar um Tyson-Thomas sem er stiga- og framlagshæsti leikmaður deildarinnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira