Körfubolti

Brynjar: Það er meistarakarakter þarna undir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

KR-ingar urðu á dögunum deildarmeistarar í Domino´s deild karla í körfubolta fjórða árið í röð en þeir hafa þó ekki náð að sýna sitt besta í vetur og miklar sveiflur hafa verið í leik liðsins á þessu tímabili.

Guðjón Guðmundsson ræddi meðal annars við fyrirliðann Brynjar Þór Björnsson og þjálfarann Finn Frey Stefánsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Við eigum helling inni en að sama skapi erum við búnir vinna leiki sem hafa verið tæpir og komið til baka í mörgum leikjum þar sem við höfum verið undir. Það sýnir ákveðinn karakter í liðinu,“ sagði Brynjar Þór Björnsson.

„Það er meistarakarakter þarna undir og ég held að hann muni koma fram í úrslitakeppninni,“ sagði Brynjar Þór en KR hefur unnið þrjú undanfarin ár.

„Þetta verður alltaf erfiðara og þá sérstaklega að sækja í hvatninguna sem þarf til að vinna. Ná að búa til hungur í hópnum og hungur í liðnu. Það er það erfiðasta í þessu öllu að koma og vinna þetta fjórða árið í röð,“ sagði Brynjar Þór.

Það má sjá frétt Guðjóns í spilaranum hér fyrir ofan en þar ræðir hann meðal annars við Finn Frey Stefánsson, þjálfara og Benedikt Guðmundsson, þjálfara Þórsliðsins sem mætir einmitt deildarmeisturum KR í átta liða úrslitunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira