Viðskipti innlent

Grænar tölur á fyrsta haftalausa deginum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, undirritaði samning um kaup á 365 miðlum.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, undirritaði samning um kaup á 365 miðlum. Vísir/GVA

Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, var hástökkvari gærdagsins í Kauphöll Íslands þegar bréf félagsins hækkuðu um 5,5 prósent. Velta með bréf fjarskiptafélagsins nam þá 398 milljónum króna en það tilkynnti rétt fyrir opnun markaða í gær um samkomulag um kaup á rekstri 365 miðla að Fréttablaðinu og Glamour undanskildum.

Bréf verslunarfyrirtækisins Haga hækkuðu um 3,6 prósent og tryggingafélagið Sjóvá fór upp um 3,3 prósent. Þar á eftir komu bréf TM sem hækkuðu um 2,8 prósent og Skeljungs um 2,6 prósent. Nýherji var eina félagið á Aðalmarkaði Kauphallarinnar sem lækkaði í verði í gær og fór það niður um 0,7 prósent í einungis 89 milljóna króna viðskiptum. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 1,39 prósent.

Sérfræðingar á hlutabréfamarkaði sem Markaðurinn ræddi við segja ljóst að fjárfestar séu jákvæðir gagnvart ákvörðun stjórnvalda um losun gjaldeyrishafta hér á landi. Einnig að fjárfestar bíði í eftirvæntingu eftir niðurstöðu peningastefnunefndar Seðlabankans sem mun í dag greina frá stýrivaxtaákvörðun sinni. Hafa greiningaraðilar spáð óbreyttum vöxtum eða að þeir lækki um 0,25 prósentustig.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 
Fleiri fréttir

Sjá meira