Erlent

Börn grýttu og spörkuðu í flamengófugla í tékkneskum dýragarði

Atli Ísleifsson skrifar
Flamengófuglinn sem drapst var karlkyns og metinn á um 230 þúsund krónur.
Flamengófuglinn sem drapst var karlkyns og metinn á um 230 þúsund krónur. CEN/TV NOVA
Þrír drengir á aldrinum fimm til átta ára spörkuðu í flamengófugla í tékkneskum dýragarði svo hann drapst. Þeir höfðu áður kastað steinum að fuglinum.

Independent segir frá því að drengirnir hafi klifrað yfir girðingu og inn á lóð dýragarðsins í Jihlava og svo ráðist að fuglunum.

Dýrafræðingurinn Jan Vašák segir í samtali við Prague Morning að rafvirki sem var að störfum í dýragarðinum hafi stöðvað drengina þar sem hann hafi komið að þeim að misþyrma fuglunum. Einn flamengófugl var þá dauður og annar illa særður.

Starfsmenn dýragarðsins segja að þeir hafi reynt að ná drengjunum en þeim hafi tekist að flýja. Einn drengjanna hafi verið í einkennandi gulri peysu og tókst lögreglu að hafa uppi á tveimur þeirra með aðstoð upptakna úr öryggismyndavélum. Þeim þriðja tókst að sleppa undan.

Martin Maláč, talsmaður dýragarðsins, segir að drengirnir hafa ekki sýnt nein merki þess að skammast sín og kann svo að fara að foreldrum þeirra verði gert að greiða bætur.

Flamengófuglinn sem drapst var karlkyns og komst lífs af eftir flóð í dýragarði í Prag árið 2002 áður en hann var fluttur til garðsins Jihlava. Fuglinn var metinn á um 230 þúsund krónur.

Dýragarðsstarfsmenn óttast að árás drengjanna hafi hrætt aðra fugla og að það kunni að hafa áhrif á ræktun fuglanna í garðinum.

Jihlava er bær í suðurhluta Tékklands, rúmum 120 kílómetrum suðaustur af höfuðborginni Prag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×