Körfubolti

Barkley skoraði á pabba Ball í einn á einn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Charles Barkley var frábær leikmaður á sínum tíma og nú vill hann leik við LaVar Ball.
Sir Charles Barkley var frábær leikmaður á sínum tíma og nú vill hann leik við LaVar Ball. Vísir/Samsett/Getty

NBA-goðsögnin Charles Barkley og gráðugasti körfuboltapabbinn í Bandaríkjunum halda áfram að skjóta á hvorn annan í fjölmiðlum en nú síðast gekk Barkley einu skrefi lengra. ESPN segir frá.

Charles Barkley hefur fyrir löngu fengið sig fullsaddan af yfirlýsingum LaVar Ball sem er duglegur að monta sig af þremur drengjum sínum sem eru allir í hópi efnilegri körfuboltamönnum Bandaríkjanna.

Elsti drengurinn, Lonzo Ball, og sá eini sem er kominn í háskóla þykir líklegur til að vera valinn mjög snemma í NBA-nýliðavalinu í sumar. Hinir tveir eru enn í menntaskóla en þegar búnir að ákveða að spila með hinum virta UCLA skóla eins og elsti bróður sinn.

Eftir að LaVar Ball talaði um að hann vildi frá einn milljarð dollara fyrir skósamning fyrir drengina þrjá þá ákvað Charles Barkley að ganga lengra en bara gagnrýna LaVar Ball.

Charles var þá gestur í útvarpsþættinum „Mike & Mike” á ESPN og talið barst að hinum yfirlýsingaglaða LaVar Ball sem hefur meðal annars sagt að elsti sonurinn sinn sé betri en Steph Curry.

Það sem kveikti fyrir alvöru í Barkley var að LaVar Ball sagði að ef að Barkley hefði hugsað eins og hann þá ætti hann kannski meistarahring í dag. Barkley sagðist alveg vera klár í að bera ferla þeirra tveggja saman en þá kom ýmislegt í ljós.

Barkley frétti nefnilega af því að LaVar Ball hafi aðeins skorað 2,2 stig að meðaltali á háskólaferli sínum með Washington State skólanum. Það virkaði eins og olía á eld fyrir Sir Charles.

„Þegar hann fór að tala um að ég hafi ekki unnið meistaratitil þá sagði ég við sjálfan mig: Ég þarf að fara gúgla þennan gæja því kannski missti ég Ball-tímabilinu þegar hann var yfirburðarmaður vinnandi meistaratitla út um allt,“ sagði Charles Barkley og bætti við:

„Ég er orðinn of gamall og feitur til að spila körfubolta en ég skora samt á herra Ball í 1 á 1. Ég veit ekki einu sinni hversu gamall hann er, hann hlýtur að vera á svipuðum aldrei og ég, en maður sem skorar bara tvö stig að meðaltali í leik getur ekki unnið mig í 1 á 1,“ sagði Barkley í „Mike & Mike” þættinum á ESPN.

LaVar Ball var fljótur til og svaraði Barkley fullum hálsi. „Hann vill skora á mig í leik og segir að ég hafi bara skorað tvö stig í leik. Hverjum er ekki sama um það? Staðreyndin er bara sú að hann getur ekki spilað því hann er orðinn svo feitur. Hann hætti bara að halda sig í TNT stúdíóinu og borða kleinuhringina sína. Um leið og þú kemur með kleinuhringi til hans þá verður hann besti vinur þinn á ný,“ sagði LaVar Ball í hæðnistón.

Miðað við athyglissýki beggja þá er allt eins líklegt að við sjáum þá mætast á körfuboltavellinum. Það væru örugglega margir til í að borga fyrir að sjá slíkan leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira