Körfubolti

Jóhann: Ánægður með kraftinn í mínum mönnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann var sáttur með leik Grindvíkinga í sigrinum gegn Þór í kvöld.
Jóhann var sáttur með leik Grindvíkinga í sigrinum gegn Þór í kvöld.

Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur var mjög sáttur með frammistöðu sinna manna í sigrinum á Þór frá Þorlákshöfn í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar í kvöld. Grindavík er því komið 1-0 yfir í einvíginu.

„Ég er mjög ánægður og auðvitað með sigurinn númer 1, 2 og 3, það er það sem þetta snýst um. Frammistaðan heilt yfir var mjög góð,“ sagði Jóhann í samtali við Vísi eftir leik.

Grindvíkingar fengu gott framlag frá Þorleifi Ólafssyni og Ómari Erni Sævarssyni sem voru frábærir í fyrri hálfleiknum.

„Það voru allir að leggja í púkkið og þeir áttu góða spretti sem og aðrir. Heildin var mjög góð.“

Grindvíkingar spiluðu grimma vörn á Tobin Carberry sem hefur verið frábær fyrir Þór í vetur. Hann skoraði reyndar 26 stig en fékk sjaldan auðvelt skot og fékk að finna fyrir því hjá heimamönnum.

„Hann er rosalega góður og við reynum að þvinga hann í erfið skot og að hann haldi boltanum í höndunum. Við vorum varnarlega ekki alveg eins og við vildum og það er eitt og annað sem við getum lagð fyrir næsta leik,“ bætti Jóhann við.

Grindvíkingar hafa verið mikið Jójó-lið í vetur og í kvöld komu þeir af miklum krafti inn í leikinn sem þeir náðu að halda að mestu út leikinn.

„Sigur og ekki sigur, ég er mjög ánæður með kraftinn í mínum mönnum og hvernig við vorum einbeittir í því sem við vorum að gera. Við vinnum frákastabaráttuna með einhverjum 20 fráköstum og settum tóninn strax.“

Jóhann sagði í viðtali fyrir skömmu að hann væri til í að sjá hans menn fylgja leikskipulagi heilan leik og blaðamanni lék forvitni á að vita hvort það hefði gengið upp í kvöld.

„Já og nei,“ sagði Jóhann glottandi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira