Erlent

Trump stendur enn við yfirlýsingar um hlerun

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stendur enn við ásakanir sínar um Barack Obama, forveri hans, hafi fyrirskipað að símar í Trump-turninum í New York yrðu hleraðir. Þingnefndir beggja deilda þings Bandaríkjanna segja ekkert eftirlit hafa átt sér stað og Paul Ryan, forseti þingsins og leiðtogi Repúblikanaflokksins, er á sama máli.

Þrátt fyrir það varði Sean Spicer, talsmaður Trump, ásakanir forsetans. Vísaði hann til umfjöllunar um rannsóknir á samskiptum yfirvalda í Rússlandi og starfsmanna Trump, sér til stuðnings. Hann sagði deginum ljósara að einhvers konar eftirlit hefði átt sér stað.

Spicer sagði að Trump hefði skrifað „wires tapped“ í tístum sínum og að hann hafi ekki átt sérstaklega við símahleranir, heldur einhvers konar eftirlit. Trump notaði gæsalappir í tveimur tístum af fjórum sem hann skrifaði um málið. Í hinum tveimur talaði hann beinum orðum um að Obama hefði „hlerað síma“ hans.

„Hve lágt hefur Obama sokkið til að hlera síma mína í þessum mjög svo heilögu kosningum. Þetta er Nixon/Watergate. Vondur (eða sjúkur) gaur!“ skrifaði Trump.

Tístin má sjá í hlekknum hér að neðan.

Sjá einnig: Samsæriskenning rataði úr útvarpi á Twitter-síðu forsetans

Samkvæmt heimildarmanni Reuters, sem þekkir til rannsóknarinnar og annarra, hafa rannsóknaraðilar leitað „eins ítarlega og þeir gátu“ að vísbendingum um eftirlit með Trump eða samstarfsmönnum hans án árangurs.

Trump gaf í skyn í gær að von væri á upplýsingum sem myndu sanna mál hans á næstu vikum.

Hér má sjá myndband frá blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag, þar sem Sean Spicer var spurður út í málið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira