Körfubolti

James öflugur undir lokin gegn besta varnarliði deildarinnar | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sautján af 33 stigum James komu í 4. leikhluta.
Sautján af 33 stigum James komu í 4. leikhluta. vísir/getty

Fimm leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

LeBron James skoraði 17 stig í 4. leikhluta þegar Cleveland Cavaliers vann átta stiga sigur, 91-83, á Utah Jazz, besta varnarliði deildarinnar, á heimavelli.

James skoraði alls 33 stig og tók auk þess 10 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Kyrie Irving skoraði 21 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en hann lék ekkert í 4. leikhluta vegna meiðsla.

Rudy Gobert stóð upp úr í liði Utah en Frakkinn skoraði 20 stig og tók 19 fráköst.

Golden State Warriors átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Orlando Magic að velli, 122-92.

Klay Thompson var stigahæstur í liði Golden State með 29 stig, en 21 þeirra kom í 1. leikhluta. Stephen Curry bætti 25 stigum og níu stoðsendingum við.

Russell Westbrook var með þrennu þegar Oklahoma City Thunder bar sigurorð af Toronto Raptors, 102-123, á útivelli.

Westbrook skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 16 stoðsendingar. Þetta var 34. þrennan hans á tímabilinu.

Victor Oladipo var næststigahæstur í liði Oklahoma með 23 stig. Liðið hefur unnið fjóra leiki í röð.

DeMar DeRozan skoraði 22 stig fyrir Toronto sem er í 4. sæti Austurdeildarinnar.

Úrslitin í nótt:
Cleveland 91-83 Utah
Golden State 122-92 Orlando
Toronto 102-123 Oklahoma
Atlanta 91-103 Memphis
Denver 129-114 LA Clippers

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira