Erlent

Tillerson segir að hernaðaraðgerðir gegn Norður-Kóreu komi til greina

Atli Ísleifsson skrifar
Rex Tillerson er nú í Suður-Kóreu eftir heimsókn til Japans.
Rex Tillerson er nú í Suður-Kóreu eftir heimsókn til Japans. Vísir/AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að hernaðaraðgerðir sé einn af þeim möguleikum sem komi til greina þegar kemur að hvernig skuli eiga við stjórnvöld í Norður-Kóreu.

Tillerson greindi frá þessu í heimsókn sinni til Suður-Kóreu í dag.

Ráðherrann sagði að núverandi stefna, þar sem viðskiptaþvingunum hafi verið beitt gegn ríkinu um langt skeið, hafi ekki skilað tilætluðum árangri.

Bandaríkin væru því að leita nýrra leiða til að fá Norður-Kóreumenn til að hverfa frá kjarnorkuáætlun sinni.

Tillerson varði jafnframt uppsetningu eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjahers í Suður-Kóreu, sem kínversk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt. Stjórnvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum segja kerfið nauðsynlegt til að verjast þeirri ógn sem stafar af norður-kóreskum stjórnvöldum.

Tillerson mætti til Suður-Kóreu eftir heimsókn frá Japan þar sem hann sagði tuttugu ára tilraunir til að hafa áhrif á norður-kóresk stjórnvöld hafa mistekist.

Aðspurður um hvort grípa þurfi til hernaðaraðgerða sagðist ráðherrann svo sannanlega vonast til að svo verði ekki. „En ef ógnin sem stafar af vopnaáætlun þeirra kemst á það stig sem við teljum að kerfjist aðgerða af okkar hálfu, þá er sá möguleiki uppi á borðum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira