Innlent

Segir umræðu um kaupmátt vera blekkingu

Birgir Olgeirsson skrifar
„Þetta fólk er ekki að sjá þennan 20 prósenta kaupmátt sem er alltaf verið að veifa framan í okkur,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, nýkjörinn formaður VR, í Víglínunni á Stöð 2 í dag þar sem hann hélt því fram að umræðan í kringum kaupmáttaraukningu sé blekking.

„Það er fólk til dæmis með 260 þúsund krónur á mánuði á leigumarkaði sem er ekki búið að fá 20 prósenta kaupmáttaraukningu. Fjölskyldur sem búa í eigin húsnæði hafa fengið launahækkanir en á móti virðast þær skertar vegna tekjutenginga barnabóta og vaxtabóta,“ sagði Ragnar sem sagði fæsta finna fyrir því að hér á landi hafi orðið 20 prósenta kaupmáttaraukning.

„Við getum ekki sagt að einstaklingur með tvær milljónir á mánuði, sem fær 20 prósenta launahækkun og skuldar ekki krónu, sé með sömu kaupmáttaraukningu og einstaklingur á meðaltekjum eða lágmarkstekjum, 260 þúsund krónur, og er á leigumarkaði. Eða fjölskylda með tvö börn sem er að missa barna- og vaxtabætur vegna tekjutengingar.“

Hann sagði að á síðustu tveimur árum hafi í raun verið verðhjöðnun hér á landi ef húsnæðisliðurinn væri ekki tekinn inn í neysluvísitölugrunninn.

Á meðan hafi verið 12,6 prósenta kjarasamningsbundnar launahækkanir hjá VR sem gerði það að verkum að hans mati að allt tal um að launahækkanir hjá almenningi ógni stöðugleika sé ekki rétt.

Ragnar vill láta breyta lögum um lífeyrissjóði sem geri þeim mögulegt að stuðla að samfélagslegum verkefnum og uppbyggingu hér á landi. Þannig væri til að mynda hægt að koma upp óhagnaðardrifnum leigufélögum því ekkert gagn sé í að byggja íbúðir um allar trissur ef enginn hefur efni á að kaupa þær.

Hægt er að horfa á Víglínuna í heild hér fyrir ofan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×